Albert var á skotskónum í gær þegar Fiorentina sigraði Juventus, 3-0, á heimavelli. Þetta var þriðja mark hans í þremur leikjum fyrir Flórensliðið. Hann skoraði einnig í 2-1 tapi fyrir Napoli og 3-1 sigri á Panathinaikos í síðustu viku.
Fiorentina náði forystunni gegn Juventus þegar Robin Gosens skoraði eftir hornspyrnu á 15. mínútu. Aðeins þremur mínútum síðar juku heimamenn muninn í 2-0 með marki Rolandos Mandragora.
Staðan var 2-0 í hálfleik en á 53. mínútu negldi Albert síðasta naglann í kistu Gömlu konunnar. Hann fékk þá boltann inn á miðjum vallarhelmingi Juventus, einn og yfirgefinn. Albert lét ekki bjóða sér það tvisvar, rakti boltann aðeins áfram og skoraði svo með hárnákvæmu skoti framhjá Michele Di Gregorio í marki gestanna.
Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.
Albert hefur nú skorað sex mörk í sautján leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur og samtals átta mörk í öllum keppnum. Fiorentina er í 8. sæti deildarinnar með 48 stig eftir 29 umferðir.
Næstu leikir Alberts eru með íslenska landsliðinu gegn Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar Evrópu. Fyrri leikurinn fer fram í Pristína í Kósovó á fimmtudaginn en sá seinni verður í Murcia á Spáni á sunnudaginn.