Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að söfnunin hafi verið svar við neyðarbeiðni palestínska Rauða hálfmánans og að féð muni renna til skilgreindra verkefna sem miði fyrst og fremst að því að tryggja aðgang fólks að heilsugæslu, mat, hreinu vatni og skjóli.
„Markmiðið er að veita íbúum Gasa lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð,“ segir Sólrún og að um tvær milljónir íbúa séu á vergangi. Hún bendir auk þess á að yfir 90 prósent af öllu íbúðarhúsnæði á Gasa hafi skemmst eða eyðilagst og að heilbrigðisþjónusta sé í lamasessi.

Í tilkynningu segir að Palestínski Rauði hálfmáninn gegni lykilhlutverki í því að veita aðstoð á Gasa, á Vesturbakkanum auk þess sem þau aðstoða fólk sem hefur þurft að flýja Gasa til nágrannalanda.
„Félagið hefur sinnt mannúðarstarfi í Palestínu í áratugi og hefur því gríðarlega reynslu og nýtur sömuleiðis mikils trausts,“ segir Sólrún.
Mannúðaraðstoð við íbúa Gasa hefur verið mjög sveiflukennd síðustu mánuði. Möguleikar hjálparsamtaka og stofnana til að veita slíka aðstoð eru takmarkaðir og tryggja þarf öryggi allra sem að koma, bæði starfsfólks, sjálfboðaliða og íbúa.
„Þörfin fyrir mannúðaraðstoð á Gasa er hins vegar yfirþyrmandi,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum.
„Það er skortur á mat, hreinu drykkjarvatni, húsaskjóli, hreinlætisvörum og hreinlætisaðstöðu, lyfjum og heilbrigðisaðstoð og svo mætti áfram telja.“
Neyðarbeiðni palestínska Rauða hálfmánans hljóðar upp á rúmlega 443 milljónir Bandaríkjadala eða um 60 milljarða íslenskra króna. Auk Rauða krossins á Íslandi hafa mörg önnur landsfélög svarað kallinu, meðal annars Rauði krossinn í Svíþjóð og Noregi. Landsfélögin sinna hvert fyrir sig eftirliti samkvæmt samningum.
Samið var um vopnahlé á Gasa um miðjan janúar og jókst þá aðgangur samtaka og stofnana að svæðinu með neyðargögn. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) segir að vopnahléið hafi reynst mikilvægt til að bjarga mannslífum, koma mannúðaraðstoð á framfæri og halda almennum borgurum á lífi en mannúðarkreppan á svæðinu sé langt frá því að vera yfirstaðin.