Að því er fram kemur í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun voru 1085 eignir teknar af sölu. Þar af voru 70 prósent staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, 17 prósent í nágrenni þess og 13 prósent annars staðar. Þar sem sterk fylgni hefur verið á milli þess að íbúðir séu teknar af sölu á vefnum fasteignir.is og fjölda útgefinna kaupsamninga mánuði seinna er þannig hægt að áætla umsvif á fasteignamarkaði.
Líkt og sést á myndinni hér að neðan hefur íbúðum sem teknar hafa verið af sölu fjölgað á milli mánaða. Í janúar voru um 950 eignir teknar af sölu og í desember voru 650 eignir teknar af sölu.

Á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs voru einnig fleiri eignir teknar úr sölu en jarðhræringarnar í Grindavík urðu til þess að eftirspurn á fasteignamarkaði stórjókst tímabundið. Fjöldi eigna sem tekin var úr sölu í janúar og febrúar var um helmingi fleiri í ár en á sama tímabili árin 2022 og 2023.
Af þeim 1085 íbúðum sem teknar voru af sölu á öllu landinu í febrúar voru 230 nýbyggingar. Hlutfall nýbygginga sem teknar voru af sölu var hæst í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, eða um 39 prósent, en til samanburðar var hlutfall slíkra eigna sem teknar voru af sölu 20 prósent í janúar.