Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að verðbólga hafi hjaðnað um 0,4 prósentustig í febrúar en greiningardeildin telji að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
Nefndin hafa lækkað vexti á síðustu þremur fundum, eftir rúmt ár af óbreyttu vaxtastigi. Stýrivextir standa nú í 8 prósentum og munu því samkvæmt spá Landsbankans fara niður í 7,75 prósent. Íslandsbanki spáði í gær sömuleiðis 25 punkta lækkun stýrivaxta í næstu viku.
„Verðbólga hefur verið á undanhaldi síðustu mánuði og stýrivextir hafa nokkurn veginn elt hjöðnunina frá því á haustmánuðum. Þegar peningastefnunefnd kom síðast saman, þann 5. febrúar, stóð verðbólga í 4,6%. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu voru 3,9% en nefndin lækkaði vexti um 0,5 prósentustig og tók raunstýrivextina þannig niður í 3,4%. Verðbólga hjaðnaði svo í febrúar og við það fóru raunstýrivextir aftur upp í 3,8%, þar sem þeir standa nú.
Lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig myndi færa raunstýrivexti niður í 3,55% og ef verðbólga hjaðnar í takt við skammtímaspá okkar yrðu þeir 3,61% í maí þegar peningastefnunefnd kemur saman næst. Við spáum þannig þéttu taumhaldi næstu mánuði, jafnvel þótt verðbólga sé á réttri leið,“ segir í tilkynningunni.
Þrjár meginástæður fyrir að nefnin verði á bremsunni
Greiningardeildin telur að að peningastefnunefnd verði á bremsunni gagnvart lausara taumhaldi og fyrir því séu í megindráttum þrjár ástæður:
- Verðbólguvæntingar breytast lítið og horfur á tregbreytanlegri verðbólgu
- Kraftur í hagkerfinu, aukin neysla og uppsöfnuð innlán
- Launahækkanir kennara og ólga á vinnumarkaði
Um launahækkanir kennara segir greiningardeildin að umsamdar launahækkanir kennara séu nokkuð umfram hækkanir annarra hópa og að samningurinn virtist strax hafa vakið ugg meðal forsvarsmanna annarra hópa á vinnumarkaði. „Umframhækkanir til kennara gætu skapað vantraust í næstu kjarasamningalotu og til skemmri tíma gætu þeir jafnvel skapað launaskrið með því að kynda undir launakröfur víðar á vinnumarkaði. Óróleiki á vinnumarkaði getur haft áhrif á verðbólguvæntingar og þar með á verðbólgu og líklega hafa samningarnir frekar þau áhrif að peningastefnunefnd stigi varlegar til jarðar en ella,“ segir í tilkynningunni, en nánar má lesa um málið á vef Landsbankans.