Fótbolti

Fyrsta mark Rúnars í síðasta leik fyrir val Arnars

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Þór Sigurgeirsson hefur átt fast sæti í leikmannahópi Willem II í vetur og nú skorað sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni.
Rúnar Þór Sigurgeirsson hefur átt fast sæti í leikmannahópi Willem II í vetur og nú skorað sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni. Getty/San Oosterhof

Vinstri bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson minnti á sig með marki í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, í aðdraganda vals Arnars Gunnlaugssonar á fyrsta landsliðshópi sínum í þessari viku.

Rúnar, sem er 25 ára gamall, á að baki tvo A-landsleiki og var kallaður inn í landsliðshópinn í nóvember fyrir síðustu leikina undir stjórn Åge Hareide en spilaði þá ekki.

Hann bíður þess nú að sjá hvaða stefnu nýr landsliðsþjálfari tekur og hefur eflaust hjálpað sér með markinu sem hann skoraði fyrir Willem II í dag.

Rúnar jafnaði metin í 2-2 í leik gegn Utrecht á heimavelli, á 83. mínútu, en gestirnir náðu að skora sigurmark skömmu síðar.

Kolbeinn Birgir Finnsson, keppinautur Rúnars um stöðu í landsliðshópnum, sat á varamannabekk Utrecht líkt og áður á þessari leiktíð.

Utrecht er nú með 46 stig í 3. sæti deildarinnar en Willem II er í 15. sæti með 24 stig, jafnmörg og Íslendingaliðið Sparta Rotterdam sem er í 16. sæti en liðið sem endar þar fer í fallumspil. Langt er í neðstu tvö liðin, Waalwijk og Almere City með 17 og 14 stig, en tvö neðstu liðin falla beint niður um deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×