Innlent

Bílarnir dregnir upp úr sjónum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bílarnir tveir sem aldan hrifsaði í sjóinn á mánudagsmorgun eru komnir á þurrt land.
Bílarnir tveir sem aldan hrifsaði í sjóinn á mánudagsmorgun eru komnir á þurrt land. Vísir/Bjarni

Búið er að draga á land bílana tvo sem fóru í sjóinn við Akraneshöfn í óveðrinu á mánudagsmorgun þegar stærðarinnar alda gekk yfir höfnina. Tveir menn fóru einnig í sjóinn og liggur annar þeirra þungt haldinn á gjörgæslu.

Mennirnir tveir eru starfsmenn Hagtaks, sem er verktaki hjá Faxaflóahöfnum og hefur undanfarið unnið að því að lengja hafnargarðinn í Akraneshöfn. Þeir voru staddir á bryggjunni til að meta skemmdir sem urðu á hafnargarðinum vegna fyrri lægðar sem gekk yfir seint á föstudagskvöld þegar aldan hrifsaði þá til sín. 

Slökkvilið var kallað út upp úr klukkan átta ásamt lögreglu, sjúkraflutningamönnum og björgunarsveitum. Að sögn Jens Heiðars Ragnarssonar, slökkviliðsstjóra á Akranesi voru mennirnir, ekki lengi ofan í sjónum og komu sér af sjálfsdáðum upp úr sjónum með hjálp viðstaddra á höfninni. 

Þeir voru báðir fluttir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands til athugunar. Annar þeirra var svo fluttur til Reykjavíkur og er þungt haldinn á gjörgæslu Landspítalans meðan hinn er ómeiddur.

Kafarar björgunarsveitanna ætluðu að kafa eftir bílunum mánudagskvöld en þurftu að hætta við vegna of mikils vinds og slæms skyggnis. 

Kafararnir fóru aftur af stað í gær, staðsettu bílana og í dag voru þeir dregnir á land. Kranabíll frá Skóflunni hf og starfsmenn þess sáu um aðgerðina auk lögregluþjóna og starfsmanna Landhelgisgæslunnar.

Menn á landi og legi sáu um að draga bílinn á land með hjálp kranabíls.Vísir/Bjarni

Tengdar fréttir

Voru að meta skemmdir eftir fyrri lægð þegar aldan gleypti þá

Mennirnir tveir sem fóru í sjóinn við Akraneshöfn í gærmorgun eru starfsmenn Hagtaks sem er verktaki hjá Faxaflóahöfnum en menn á vegum Hagtaks hafa undanfarið unnið að því að lengja hafnargarðinn í Akraneshöfn. Þeir voru staddir á bryggjunni árla mánudagsmorguns að meta skemmdir sem urðu á hafnargarðinum vegna fyrri lægðar þegar stærðarinnar alda hrifsaði þá til sín með þeim afleiðingum að annar þeirra liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans, hinn náði að koma sér upp úr sjónum af sjálfsdáðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×