Tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra voru kynntar í gær og kom fram að hægt væri að spara að minnsta kosti sjötíu milljarða króna í ríkisrekstrinum næstu fjögur árin. Kynntar voru sextíu hagræðingartillögur, en forsætisráðherra skipaði hagræðingarhópinn í lok janúar til að fara yfir um tíu þúsund hagræðingartillögur sem sendar voru inn í samráðsgátt stjórnvalda.
Kunnuglegar tillögur
Guðrún sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hún væri búin að renna yfir tillögurnar og fylgdist sömuleiðis með blaðamannafundinum. „Ég auðvitað fagna öllum þeim tillögum sem koma fram um það að minnka ríkisrekstur og minnka báknið hér á landi. En maður getur auðvitað líka spurt sig að því: Er þetta raunveruleg hagræðing eða tilfærsla á útgjöldum,“ spyr Guðrún.
Hún segir að þarna séu margar tillögur sem að hljómi mjög kunnuglega í sín eyru. „Þarna eru til dæmis hagræðingartillögur sem ég var með á þingmálaskrá hjá mér fyrir áramót eins og til dæmis sameining héraðsdómstólanna. Þarna er verið að tala um sameiningu háskóla, sameiningu lögregluembætta og margt annað sem Sjálfstæðismenn hafa talað fyrir í mjög mörg ár. Eins og til dæmis að minnka gullhúðun.“
Ríkisreksturinn þjóni borgurunum en ekki kerfinu
Guðrún segist sömuleiðis benda á að þetta séu enn sem komið er bara tillögur. „Það er talað um sjötíu milljarða á fjórum eða fimm árum. Það á algerlega eftir að taka þessar tillögur, fara með þær inn í vinnuhóp og verðmeta þær. Þannig að þessi tala er nú ekki meitluð í stein.“
En munið þið styðja tillögur sem koma þarna fram, tillögur sem þið Sjálfstæðismenn hafi áður lagt fram?
„Við Sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu styðja allar góðar tillögur í þá veruna að minnka ríkisrekstur, ná fram hagræðingu. Ég vil líka fá að nefna í blálokin að þessar tillögur þær eiga ekki að miða að því bara að hagræðingu heldur eiga þær að miða að því að ríkisrekstur á Íslandi sé minni, hann sé skilvirkur og hann þjóni borgurunum fyrst og síðast en ekki kerfinu,“ segir Guðrún.