Fótbolti

Declan Rice eftir sjö marka kvöld: Höfum verið að spila svona allt tíma­bilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice fagnar hér marki Leandro Trossard í stórsigri Arsenal í kvöld.
Declan Rice fagnar hér marki Leandro Trossard í stórsigri Arsenal í kvöld. Getty/Ben Gal

Declan Rice og félagar hans í Arsenal kláruðu einvígið við PSV Eindhoven í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar strax í fyrri leiknum með 7-1 sigri í Hollandi í kvöld.

„Það var gott flæði í okkar leik, við höfðum ákefðina og hungrið sem þurfti til í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Við höfum verið að spila svona allt tímabilið,“ sagði Declan Rice.

„Okkur finnst við hafa verið að spila vel sem lið á leiktíðinni, stundum skorum við fimm mörk, stundum tvö mörk en stundum skorum við ekki. Við gerðum vel í kvöld. Við áttum líka möguleika á því að skora fleiri mörk í seinni hálfleiknum,“ sagði Rice.

Rice vildi hrósa sérstaklega hinum sautján ára gamla Ethan Nwaneri. „Toppframmistaða. Hann er bara sautján ár gamall og að spila á stærsta sviðinu. Við höfum tekið hann og þessa ungu stráka undir okkar verndarvæng og þeir eiga skilið að vera að spila. Þið ættuð að sjá þá á æfingum þegar þeir eru óttalausir og vilja standa sig,“ sagði Rice.

„Þótt að [Bukayo] Saka væri hér þá væri Ethan samt að fá mínútur. Hann er það góður og leggur svo mikið á sig á æfingum. Sama með Myles þótt að hann hafi þurft að koma af velli í kvöld vegna gula spjaldsins. Við eigum svo marga flotta unga stráka,“ sagði Rice en að hans mati er þetta ekki búið.

„Þetta er ekki komið og við skulum sjá til hvað gerist,“ sagði Rice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×