Fótbolti

Albert gæti spilað Seríu A leik í Banda­ríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson og Edoardo Bove komu báðir til Fiorentina í sumar og fagna hér saman sigri gegn AC Milan.
Albert Guðmundsson og Edoardo Bove komu báðir til Fiorentina í sumar og fagna hér saman sigri gegn AC Milan. Getty/Gabriele Maltinti

Ítalska Seríu A fótboltadeildin er að kanna það fyirr alvöru að spila deildarleiki á bandarískri grundu í næstu framtíð.

Markmiðið er að spila reglulega leiki í Bandaríkjunum og þetta á að byrja á næstu þremur árum. Þetta staðfestir Michele Ciccarese, markaðsstjóri deildarinnar.

Auknar líkur eru á því að deildarleikir fari fram í öðrum löndum eftir að sátt náðist í málaferlum New York fyrirtækisins Relevent gegn FIFA um einmitt þennan möguleika. ESPN fjallar um þetta.

FIFA sagðist ætla að endurskoða afstöðu sína að banna deildarleiki á erlendri grundu en það eru þó engar reglubreytingar orðnar að veruleika ennþá.

„Fullt af deildum eru að skoða þann möguleika að spila deildarleiki erlendis,“ sagði Michele Ciccarese.

„Ef þú horfir til NFL þá hafa þeir verið að spila í Þýskalandi og í London. Þeir ætla líka að spila í Ástralíu. Það er því margt að gerast sem eykur líkurnar á slíku í fótboltanum,“ sagði Ciccarese.

Ciccarese segir að nú sé það undir þeim komið að setja saman góða tillögur sem gerir það líklegra að slíkt yrði samþykkt af þeim sem ráða.

„Við erum að gera það núna. Hver veit, kannski eftir eitt eða tvö ár þá sjáum við okkar leiki fara erlendis. Við þurfum samþykki ítalska sambandsins, samþykki UEFA og í framhaldinu samþykki FIFA og svo að lokum þarf samfélagið að gefa grænt ljós,“ sagði Ciccarese.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×