Fótbolti

Bologna kom til baka gegn AC Milan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Santiago Castro fagnar með stæl.
Santiago Castro fagnar með stæl. EPA-EFE/ELISABETTA BARACCHI

Bologna lagði AC Milan 2-1 í eina leik kvöldsins í Serie A, efstu deild karla á Ítalíu. Um var að ræða sjöunda tap Mílanó-manna á leiktíðinni og er liðið í 8. sæti sem stendur, átta stigum frá Meistaradeildarsæti.

Rafael Leão kom gestunum frá Mílanó yfir á markamínútunni sjálfri (43. mínútu) eftir undirbúning Santiago Giménez. Staðan 0-1 í hálfleik en heimamenn bitu frá sér í síðari hálfleik.

Hinn tvítugi Santiago Castro jafnaði metin eftir aðeins þriggja mínútna leik í síðari hálfleik. Það var svo Dan Ndoye sem tryggði Bologna stigin þrjú með sigurmarkinu þegar átta mínútur voru til loka venjulegs leiktíma, lokatölur 2-1 á Renato Dall‘Ara-vellinum í Bologna.

Það verður ekki annað sagt en sigurinn hafi verið verðskuldaður þar sem Bologna skapaði sér xG (vænt mörk) upp á 1.98 gegn 0.62 hjá AC Milan. Jafnframt var Bologna 59 prósent með boltann.

Bologna er nú í 6. sæti með 44 stig að loknum 26 leikjum. AC Milan er með 41 stig í 8. sæti eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×