Íslenski boltinn

Þeir bestu (60.-51. sæti): Himna­sending frá Skot­landi, Sölvi Helga­son ís­lenska boltans og tíur af guðs náð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 60-51.
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 60-51. grafík/sara

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 60.-51. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

60. Damir Muminovic

  • Lið: HK, Víkingur Ó., Breiðablik
  • Staða: Miðvörður
  • Fæðingarár: 1990
  • Íslandsmeistari: 2022, 2024
  • Leikir í efstu deild: 267
  • Mörk í efstu deild: 14
  • Stoðsendingar í efstu deild: 9
  • Sex sinnum í liði ársins

Líklega gerði Breiðablik ein sín bestu, ef ekki bestu, kaup í sögunni þegar liðið fékk Damir Muminovic fyrir tímabilið 2014. Eftir nokkuð brösuga byrjun á ferlinum vakti Damir athygli með Víkingi Ó. 2013 og Breiðablik stökk til og samdi við hann. Ellefu tímabilum síðar er hann næstleikjahæstur í sögu Breiðabliks í efstu deild og hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla.

Damir Muminovic í fangi stuðningsmanna Breiðabliks eftir sigurinn á Víkingi í úrslitaleik Bestu deildarinnar í fyrra.vísir/anton

Þjálfarar hafa komið og farið hjá Breiðabliki en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa treyst á Damir. Hann myndaði frábært miðvarðapar með Elfari Frey Helgasyni og í sameiningu fóru þeir fyrir besta varnarliði í sögu tólf liða deildar.

Tímabilið 2015 fékk Breiðablik aðeins þrettán mörk á sig í 22 deildarleikjum sem er það minnsta síðan liðum í efstu deild var fjölgað í tólf 2008. Á ellefu tímabilum Damirs með Breiðabliki hefur liðið fimm sinnum fengið eitt mark eða minna á sig að meðaltali í leik sem er alltaf gæðastimpill fyrir vörn.

Damir aðlagaðist leikstíl Óskars Hrafns Þorvaldssonar og varð Íslandsmeistari með Blikum 2022. Áherslurnar breyttust aðeins þegar Halldór Árnason tók við liðinu undir lok árs 2023 en áfram var Damir aðalmaðurinn í vörninni. Og hann bætti öðrum Íslandsmeistaratitli í safnið þegar Breiðablik vann Víking, 0-3, í úrslitaleiknum í fyrra.

59. Guðmundur Sævarsson

  • Lið: FH
  • Staða: Hægri bakvörður
  • Fæðingarár: 1978
  • Íslandsmeistari: 2004, 2005, 2006, 2008, 2009
  • Bikarmeistari: 2007, 2010
  • Leikir: 165
  • Mörk: 15
  • Stoðsendingar: 24
  • Einu sinni í liði ársins

Einn frægasti leikur íslenskrar fótboltasögu sem skipti engu máli fyrir annað liðið var leikur FH og KR í lokaumferðinni 2003. KR-ingar mættu í Krikann sem Íslandsmeistarar og Willum Þór Þórsson leyfði nokkrum minni spámönnum að spreyta sig. Því hefði hann betur sleppt. FH-ingar áttu enn möguleika á að ná Evrópusæti og þeir sýndu KR-ingum enga miskunn. FH vann 7-0 sigur og náði sálrænu taki á KR sem liðið lét ekki af hendi næstu árin.

Guðmundur Sævarsson átti stóran þátt í velgengni FH.getty/adam Davy

FH varð Íslandsmeistari fimm sinnum á næstu sex árum og tapaði ekki fyrir KR fyrr en 2009. Einn af lykilmönnunum í þessari velgengni FH var maðurinn sem skoraði þrennu í 7-0 sigrinum; Guðmundur Sævarsson. Ferill hans með FH fór ekki af stað með neinum látum en eftir tímabilið 2003 var hann færður í stöðu hægri bakvarðar. Og þar blómstraði hann.

Guðmundur var hluti af sterkri vörn FH næstu árin og auk þess mikilvægur í sóknarleik liðsins. Hann var duglegur að koma fram völlinn og styðja við hægri kantmanninn, hvort sem það var Jón Þorgrímur Stefánsson, Ólafur Páll Snorrason eða Matthías Guðmundsson, en allir nutu þeir góðs af samvinnunni við Guðmund sem vann sjö stóra titla með FH á sjö árum.

58. Gunnar Heiðar Þorvaldsson

  • Lið: ÍBV
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1982
  • Bikarmeistari: 2017
  • Leikir: 127
  • Mörk: 61
  • Stoðsendingar: 21
  • Tvisvar sinnum í liði ársins
  • Gullskór: 2004
  • Bronsskór: 2003

Varla er hægt að hugsa sér mikið betri endi á ferlinum en Gunnar Heiðar Þorvaldsson fékk sumarið 2017. Í síðasta leik sínum með ÍBV skoraði hann þrennu, í 2-5 sigri á Grindavík. Alls skoraði Gunnar Heiðar níu mörk í deildinni sumarið 2017, sínu síðasta tímabili á ferlinum.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í úrslitaleik bikarkeppninnar 2017. Hann skoraði þá sigurmark ÍBV gegn FH.hafliði breiðfjörð

Svo skoraði hann auðvitað sigurmark ÍBV í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn FH. Eyjamenn unnu þar sinn fyrsta titil síðan 1998 þrátt fyrir að flestir hafi búist við sigri FH-inga sem voru þá Íslandsmeistarar. Síðan þá hafa stuðningsmenn ÍBV ekki oft haft ástæðu til að gleðjast en bikartitilinn fyrir átta árum var eftirminnilegur. 

Alls skoraði Gunnar Heiðar 23 mörk eftir að hann sneri aftur til ÍBV um mitt sumar 2016. Og áður en hann fór út í atvinnumennsku skoraði hann svo tíu mörk eða meira þrjú tímabil í röð. Síðasta tímabilið áður en Gunnar Heiðar fór út skoraði hann tólf mörk í sextán deildarleikjum fyrir ÍBV sem var hársbreidd frá því að verða Íslandsmeistari.

Gunnar Heiðar var einnig nálægt því að verða Íslandsmeistari 2001 en þá varð ÍBV af titlinum í úrslitaleik gegn ÍA. Hann var þá annar kostur í Eyjasókninni á eftir Tómasi Inga Tómassyni en næstu þrjú sumur var hann aðalmaðurinn hjá ÍBV og skoraði samtals 33 mörk í 52 deildarleikjum. Síðan tóku við landvinningar en Gunnar Heiðar varð meðal annars markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

57. David Winnie

  • Lið: KR
  • Staða: Miðvörður
  • Fæðingarár: 1966
  • Íslandsmeistari: 1999, 2000
  • Bikarmeistari: 1999
  • Leikir: 37
  • Mörk: 2
  • Leikmaður ársins: 1998
  • Einu sinni í liði ársins

David Winnie spilaði aðeins 37 deildarleiki á Íslandi en markaði samt djúp spor í sögu efstu deildar. Skotinn varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með KR og einu sinni bikarmeistari og tapaði einu sinni í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Varnartölfræði KR í þessum 37 leikjum sem Winnie spilaði er ótrúleg. Já, í þessum 37 deildarleikjum sem Winnie lék í svarthvíta búningnum fékk KR aðeins 25 mörk á sig og hélt nítján sinnum hreinu. Árin sem Winnie lék með KR fékk liðið alltaf á sig fæst mörk í efstu deild.

David Winnie er einn fjögurra útlendinga sem hafa verið valdir leikmaður ársins á Íslandi.úr einkasafni

Vörn KR var sérstaklega góð fyrsta tímabilið eftir að Winnie kom. Í deildarleikjunum þrettán sem skoski harðjaxlinn lék sumarið 1998 fékk KR aðeins sjö mörk á sig og hélt níu sinnum hreinu, þar af í sjö leikjum í röð. KR-ingar töpuðu fyrir Eyjamönnum í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og því lengdist bið þeirra eftir þeim stóra enn frekar. En Winnie var valinn leikmaður ársins á lokahófi KSÍ.

Winnie mætti aftur til landsins árið eftir og það var ár KR-inga. Á hundrað ára afmæli félagsins vann það Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 31 ár og bikarinn að auki. Winnie og Þormóður Egilsson mynduðu grjóthart miðvarðapar og KR fékk aðeins þrettán mörk á sig í átján leikjum í deildinni, fæst allra. Síðasta sumar Winnies á Íslandi spilaði hann aðeins átta leiki en fagnaði samt Íslandsmeistaratitlinum aftur. Sumarið á eftir var síðan allt í steik hjá KR. Winnie tók við liðinu eftir að Pétur Pétursson hætti og það bjargaði sér frá falli með sigri í Grindavík í lokaumferðinni.

Tíminn sem Winnie var hér á landi var stuttur en hann nýtti hann vel. Hann kom sér í goðsagnatölu hjá stuðningsmönnum KR og er einn allra besti erlendi leikmaður sem hefur leikið á Íslandi.

56. Anton Ari Einarsson

  • Lið: Valur, Breiðablik
  • Staða: Markvörður
  • Fæðingarár: 1994
  • Íslandsmeistari: 2017, 2018, 2022, 2024
  • Bikarmeistari: 2016
  • Leikir: 196
  • Haldið hreinu: 65
  • Einu sinni í liði ársins

Miðað við umræðuna mætti stundum halda að Anton Ari Einarsson sé rétt slarkfær Lengjudeildarmarkvörður. Og stundum hefur hann vissulega spilað þannig. En ferilskráin, þú ybbar ekki mikinn gogg við hana.

Ekki vantar titlana á ferilskrá Antons Ara Einarssonar. vísir/diego

Anton hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari sem aðalmarkvörður, tvisvar með Val og tvisvar með Breiðabliki. Hann hefur spilað 196 leiki í efstu deild og haldið hreinu í 65 þeirra sem er fínasta tölfræði.

Anton stóð á milli stanganna í bikarmeistaraliði Vals 2016 og Íslandsmeistaraliðunum 2017 og 2018. En þrátt fyrir þrjá titla á þremur árum var honum fórnað þegar Hannes Þór Halldórsson kom á Hlíðarenda. Ákvörðun sem var kannski rétt til skamms tíma en deila má um hversu góð hún var til lengri tíma litið. Breiðablik stökk þá til og fékk Anton til að taka við af Gunnleifi Gunnleifssyni.

Það er ekki auðveldasta verkefnið að vera markvörður í liðum Óskars Hrafns en Anton aðlagaðist því vel. Breiðablik varð Íslandsmeistari með yfirburðum 2022 en tímabilið á eftir var erfitt, sérstaklega fyrir Anton sem var ekki skugginn af sjálfum sér. En Blikar héldu tryggð við Mosfellinginn og hann borgaði til baka. Anton átti stórgott tímabil í fyrra, var besti markvörður Bestu deildarinnar og Blikar stóðu uppi sem Íslandsmeistarar. Svona á að svara fyrir sig.

55. Gary Martin

  • Lið: ÍA, KR, Víkingur, Valur, ÍBV
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1990
  • Íslandsmeistari: 2013
  • Bikarmeistari: 2012, 2014
  • Leikir: 108
  • Mörk: 57
  • Stoðsendingar: 23
  • Tvisvar sinnum í liði ársins
  • Gullskór: 2014, 2019
  • Silfurskór: 2013 

„Gary Martin, er það ekki einhver leikari?“ spurði Rúnar Kristinsson, þáverandi þjálfari KR, í viðtali er hann var spurður í áhuga KR-inga á enska framherjanum eftir tímabilið 2010. Ekkert verður fjölyrt um leikhæfileika Garys en hann var heldur betur öflugur framherji og jú, Rúnar fékk hann á endanum í KR eftir að hann hafði sannað sig með ÍA.

Gary Martin fagnar bikarmeistaratitlinum 2014 með Stefáni Loga Magnússyni.vísir/andri marinó

Undir stjórn Rúnars hjá KR átti Gary sín bestu ár á ferlinum. Á tveimur og hálfu tímabili með Rúnari varð Gary einu sinni Íslandsmeistari, tvisvar sinnum bikarmeistari og vann einn gullskó og einn silfurskó.

Gary náði kannski aldrei sömu hæðum eftir þetta og stoppaði jafnan stutt við á hverjum stað. Hann var aðeins 29 ára síðasta tímabil sitt í efstu deild en nældi sér samt í annan gullskó þrátt fyrir að spila með lélegasta liði deildarinnar, ÍBV. Alls urðu leikirnir í efstu deild 108 og mörkin 57. Gary er þriðji markahæsti erlendi leikmaður í sögu efstu deildar á eftir Patrick Pedersen og Steven Lennon.

Öfugt við þá festi Gary hvergi rætur, enda eins konar Sölvi Helgason íslenska boltans. Umdeildur? Já. Erfiður? Eflaust. En eftirminnilegur? Svo sannarlega. Kannski skildum við hann bara ekki.

54. Birkir Már Sævarsson

  • Lið: Valur
  • Staða: Hægri bakvörður
  • Fæðingarár: 1984
  • Íslandsmeistari: 2007, 2018, 2020
  • Bikarmeistari: 2005
  • Leikir: 213
  • Mörk: 18
  • Stoðsendingar: 28
  • Þrisvar sinnum í liði ársins

Ein besta stöðubreyting í sögu íslenska boltans var þegar Birkir Már Sævarsson var gerður að hægri bakverði í kringum tvítugt. Þar breyttist ágætis framherji í okkar besta hægri bakvörð; lykilmann í gullaldarlandsliðinu okkar og einn fjögurra í hundrað landsleikja klúbbnum.

Birkir Már Sævarsson gengur af velli eftir síðasta leik sinn fyrir Val. Hlíðarendapiltar unnu þá Skagamenn, 6-1.vísir/anton

Birkir Már átti langan og farsælan atvinnumannaferil en hér heima naut Valur, hans ástkæra félag, krafta hans. Þrátt fyrir að hafa leikið erlendis í níu ár náði hann samt rúmlega 213 leikjum í efstu deild hér heima.

Birkir Már var í Valsliðinu 2007 sem batt endi á tuttugu ára bið eftir Íslandsmeistaratitlinum og varð svo aftur meistari á endurkomutímabilinu 2018, milli þess sem hann spilaði með landsliðinu á HM í Rússlandi. Þriðji Íslandsmeistaratitilinn kom svo 2020.

Síðustu ár hafa verið tíðindalítil á Hlíðarenda, allavega þegar að titlum kemur en Birkir Már hefur alltaf staðið sig í stykkinu. Hann var á fertugasta aldursári þegar hann kvaddi Val í fyrra og var þá enn einn besti bakvörður deildarinnar.

53. Hallgrímur Mar Steingrímsson

  • Lið: Víkingur, KA
  • Staða: Kantmaður
  • Fæðingarár: 1990
  • Bikarmeistari: 2024
  • Leikir: 196
  • Mörk: 66
  • Stoðsendingar: 56
  • Einu sinni í liði ársins
  • Bronsskór: 2021

Hallgrímur Mar Steingrímsson þurfti ekki bikarmeistaratitilinn í fyrra til að staðfesta að hann sé einn besti leikmaður síðasta áratugar í íslenska boltanum. En það var ánægjulegt að sjá hann uppskera eftir góða spilamennsku og gríðarlegan stöðugleika síðustu ár.

Hallgrímur Mar Steingrímsson í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í fyrra. KA vann þá Víking, 2-0.vísir/diego

Sumarið í fyrra var það fyrsta frá því KA kom upp 2017 sem Hallgrímur missti af deildarleik með liðinu. Og það þurfti einhver svæsin veikindi til að ljúka ótrúlegum kafla þar sem hann spilaði 160 leiki í röð í efstu deild. En Hallgrímur gerði meira en bara að spila þessa leiki.

Framleiðnin þegar kemur að áþreifanlegum þáttum eins og mörkum og stoðsendingum var mikil. Í 196 leikjum í efstu deild hefur Hallgrímur skorað 66 mörk og gefið 56 stoðsendingar. Og í áratug hefur hann borið uppi sóknarleik KA og heldur alltaf háum staðli þótt liðið geri það ekki alltaf.

Eina syndin er að tímabilin í efstu deild hafi ekki verið enn fleiri. Hallgrímur byrjaði nefnilega ekki að spila þar fyrr en hann var 27 ára, fyrir utan eitt fínt tímabil með Víkingi 2015. En hann hefur svo sannarlega sitt mark sitt á deildina og auðvitað KA enda besti leikmaður í sögu félagsins.

52. Hilmar Árni Halldórsson

  • Lið: Leiknir, Stjarnan
  • Staða: Miðjumaður/kantmaður
  • Fæðingarár: 1992
  • Bikarmeistari: 2018
  • Leikir: 192
  • Mörk: 71
  • Stoðsendingar: 52
  • Silfurskór: 2018
  • Fjórum sinnum í liði ársins

Neðri deildar nördar höfðu vitað af Hilmari Árna Halldórssyni í nokkur ár áður en hann sýndi hvers hann var megnugur í efstu deild með Leikni sumarið 2015. Leiknismenn fengu aðeins fimmtán stig en Hilmar Árni vakti athygli Stjörnunnar sem fékk hann í Garðabæinn. Það reyndust snilldarkaup.

Hilmar Árni Halldórsson á vítapunktinum þar sem hann var allajafna mjög öruggur.vísir/daníel

Hilmar Árni lék með Stjörnunni í níu ár, spilaði 170 deildarleiki með liðinu og skoraði 67 mörk. Hann er langmarkahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild og líklega einn af allra bestu leikmönnum í sögu félagsins. Hilmar Árni er einn sparkvissasti leikmaður í sögu efstu deildar og með ótrúlega gott nef fyrir að koma sér í góðar stöður, oftar en ekki á vítateigslínunni, à la Frank Lampard.

Þrátt fyrir að vera miðju- eða kantmaður er markatölfræði Hilmars Árna frábær. Hann er með 0,39 mörk að meðaltali í leik og skoraði þrisvar sinnum tíu mörk eða meira í deildinni. Tímabilin 2018 og 2019 lék hann alla 44 deildarleiki Stjörnunnar og skoraði samtals 29 mörk. Sextán þeirra komu 2018 þegar Hilmar Árni fékk silfurskóinn. Þá vann hann eina stóra titilinn sinn á ferlinum (bikarmeistaratitilinn) og Stjarnan var ekki langt frá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Hilmar Árni missti samtals af tveimur leikjum fyrstu sjö tímabil sín í efstu deild en sleit krossband í hné á undirbúningstímabilinu 2022 og missti af öllu því sumri. Hann sneri aftur 2023, lék í tvö ár áður en hann hætti eftir síðasta tímabil, aðeins 32 ára. Alltof snemma ef þú spyrð mig.

51. Viktor Bjarki Arnarsson

  • Lið: Víkingur, Fylkir, KR, Fram
  • Staða: Miðjumaður
  • Fæðingarár: 1983
  • Íslandsmeistari: 2011
  • Bikarmeistari: 2008, 2011, 2012, 2013
  • Leikir: 210
  • Mörk: 26
  • Stoðsendingar: 34
  • Leikmaður ársins: 2006
  • Tvisvar sinnum í liði ársins

Sjaldan hefur einn leikmaður borið jafn þungar byrðar í sóknarleik eins liðs og Viktor Bjarki Arnarsson hjá Víkingi tímabilið 2006. Hann spilaði alla átján deildarleikina, skoraði átta af 21 marki Víkinga og var valinn leikmaður ársins þrátt fyrir að liðið hans hafi bara endað í 7. sæti.

Viktor Bjarki Arnarsson gerði góða hluti með KR.vísir/anton

Miklar væntingar voru gerðar til Viktors þegar hann fór í KR 2008. Hann lék með KR út tímabilið 2012 með einu stoppi hjá í Noregi. Viktori tókst kannski ekki að vera „lead“ gítarleikari í KR, eins og hann var hjá Víkingi (enda í mun sterkara liði), en hann var afbragðs ryþma gítarleikari.

Samvinna þeirra Bjarna Guðjónssonar og Baldurs Sigurðssonar á miðjunni tvöfalda meistaraárið 2011 var frábær en þeir gengu í hlutverk hvers annars eftir þörfum og héldu góðu jafnvægi í dúndurgóðu liði.

Viktor varð einu sinni Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með KR og bætti svo einum eftirminnilegum bikarmeistaratitli með Fram í safnið 2013. Hann sneri svo aftur í Víkina en var þá orðinn allt öðruvísi leikmaður en þegar hann stýrði sjóinu svo snilldarlega sumarið 2006.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×