Viðskipti innlent

Ráðinn fram­kvæmda­stjóri COWI á Ís­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Sverrir Gunnarsson.
Gunnar Sverrir Gunnarsson. COWI

Gunnar Sverrir Gunnarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra COWI á Íslandi. Hann hefur starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra síðastliðna þrjá mánuði.

Í tilkynningu segir að Gunnar Sverrir sé með bakgrunn í véla- og iðnaðarverkfræði og hafi starfað hjá Mannviti frá árinu 1998, fyrir sameiningu þess við COWI árið 2023. Síðan þá hafi hann gegnt ýmsum lykilstöðum, meðal annars stöðu sviðsstjóra orku og setið í framkvæmdastjórn.

Haft er eftir Michael Bindseil, framkvæmdastjóra hjá COWI, að Gunnar Sverrir hafi yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á íslenskum markaði og hafi gegnt lykilhlutverki í sameiningu Mannvits og COWI. „Á undanförnum árum hefur hann sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika og byggt upp traust sambönd við viðskiptavini okkar. Ég er sannfærður um að hann muni leiða COWI á Íslandi til áframhaldandi vaxtar og velgengni.“

Þá er haft eftir Gunnari að hann sé mjög spenntur að taka þessari áskorun. „Hjá COWI leggjum við mikla áherslu á að skilja þarfir viðskiptavina og náið samstarf við skrifstofur okkar um allan heim. Við, ásamt viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum á Íslandi, getum nýtt okkur sérfræðiþekkingu COWI en þar starfa yfir 7.500 sérfræðingar.” segir Gunnar Sverrir.

COWI á Íslandi hefur unnið að fjölda verkefna líkt og Hellisheiðarvirkjun, Hvammsvirkjun og gagnaveri Verne í Reykjanesbæ. 

COWI er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku. Mannvit sameinaðist COWI árið 2023 Sérfræðingar COWI telja um 7.500 aðila að meðtöldum 260 einstaklingum á Íslandi og nær þjónustusviðið yfir verkfræði, arkitektúr, orku og umhverfismál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×