Það raunar vakti undrun margra fyrir fimm árum að umræddur vegbútur skyldi ekki vera kláraður þá, samtímis því sem tveir samtals ellefu kílómetra langir kaflar Grafningsvegar voru lagðir bundnu slitlagi. Þessi eini kafli sem skilinn var eftir er enda örstuttur, aðeins 1,3 kílómetra langur.

Svo mikil var óánægjan að staðarhaldari skátamiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni efndi til undirskriftasöfnunar í sveitinni sumarið 2020 þar sem skorað var á Vegagerðina að ljúka malbikun þessa síðasta kafla Grafningsvegar. Um tvöhundruð manns skrifuðu undir.
Kvartað var undan því að Vegagerðin hefði árin á undan heflað þennan vegkafla án þess þó að bæta efni í hann. Stórgrýti stæði því upp úr honum öllum og þess á milli væru stórar og leiðinlegar holur.

Í útboðsauglýsingu Vegagerðarinnar er verkið kallað „Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss – Grafningsvegur neðri“. Tvöföld klæðning verður lögð á veginn og 390 metra langt vegrið. Tilboðum skal skilað inn rafrænt í síðasta lagi þriðjudaginn 4. mars næstkomandi.
Í frétt Stöðvar 2 sumarið 2019 má heyra íbúa Grafnings fagna fyrirhuguðum vegarbótum: