Stjórn Íslandsbanka er með á borðinu tilboð frá stjórn Arion banka um að hefja viðræður um samruna bankanna. Stjórn Arion telur að með samruna geti neytendur sparað sér allt að fimm milljarða á ári hverju.
Þó Arion telji samkeppni á bankamarkaði aukast með samruna hafa margir dregið þá fullyrðingu í efa. Þeirra á meðal er Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.
„Þó það sé óneitanlega örugglega einhver sparnaður í kortunum á því að fækka bönkum, þá er þarna verið að skoða tvo af þremur bönkum sem eru með vel yfir níutíu prósent markaðshlutdeild á öllum helstu mörkuðum á Íslandi. Það er bara nánast útilokað að slíkur samruni verði heimilaður vegna þess að samkeppnin er lítil og yrði enn minni eftir þetta,“ segir Gylfi.
Hann skilur ekki hvers vegna Arion leggur af stað í þetta verkefni.
„Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvernig þeir komast að þeirri niðurstöðu að einhver von sé til þess að þetta gengi eftir. Mér finnst það alveg borðleggjandi að þetta nær ekki fram að ganga,“ segir Gylfi.
Bankarnir séu reknir í hagnaðarskyni.
„Þó þeir vilji auðvitað halda í viðskiptavinina og halda þeim góðum er það ekki beinlínis markmiðið með rekstrinum. Það að samkeppnin keyri ekki hagnaðinn niður, það bendir auðvitað til þess að hún sé ekki mjög skörp. Raunar eru allir bankarnir að hegða sér á mjög svipaðan hátt með svipaðar verðskrár, svipaðar afurðir, svipaðan vaxtamun. Eru ekkert að rugga bátnum,“ segir Gylfi.