Íslenski boltinn

Sjáðu fimm marka flengingu frá meisturunum

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Gauti Jónsson skoraði eitt marka Breiðabliks í dag með góðum skalla.
Arnór Gauti Jónsson skoraði eitt marka Breiðabliks í dag með góðum skalla. vísir/Diego

Íslandsmeistarar Breiðabliks sýndu styrk sinn á Akureyri í dag þegar þeir rúlluðu yfir KA-menn, 5-0, í A-deild Lengjubikars karla í fótbolta. Mörkin má nú sjá á Vísi.

Blikar komust í 2-0 í fyrri hálfleiknum. Fyrra markið skráist líklega sem sjálfsmark en það kom eftir fast skot Arons Bjarnasonar sem Steinþór Már Auðunsson varði í Hans Viktor Guðmundsson en þaðan fór boltinn í markið.

Arnór Gauti Jónsson skoraði svo annað markið með laglegum skalla eftir aukaspyrnu frá Davíð Ingvarssyni.

Í seinni hálfleiknum átti Aron góða sendingu frá hægri í gegnum vörn KA og á Óla Val Ómarsson sem skoraði og hefur þar með skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum í Blikabúningnum.

Óli Valur lagði svo upp fjórða markið fyrir Davíð, og sagan endurtók sig í fimmta markinu þegar Davíð skoraði aftur eftir sendingu frá Óla Val.

Mörkin má sjá hér að neðan.

Klippa: Mörk Breiðabliks gegn KA

Breiðablik hafði tapað gegn Fram og gert jafntefli við Fylki í fyrstu tveimur leikjum sínum en KA hafði gert jafntefli við Völsung og unnið 1-0 sigur gegn Njarðvík. Liðin leika í riðli 2 og eru Framarar efstir með sex stig eftir þrjá leiki en svo koma KA, Breiðablik og Fylkir með fjögur stig. Fylkir á þó leik til góða á hin liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×