Innlent

Ótímabundin verk­föll í öllum leik­skólum Kópa­vogs

Árni Sæberg skrifar
Verkföll hafa verið boðuð í öllum leikskólum Kópavogs.
Verkföll hafa verið boðuð í öllum leikskólum Kópavogs. Vísir

Félag leikskólakennara boðar ótímabundin verkföll í öllum leikskólum Kópavogs. Félag grunnskólakennara boðar verkföll í grunnskólum í þremur sveitarfélögum; Akraneskaupstað, Hveragerðisbæ og Ölfusi.

Í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands segir að félagsfólk Félags leikskólakennara, FL, sem starfar hjá Kópavogsbæ hafi samþykkt verkfallsboðun frá 3. mars næstkomandi. Leikskólar í Kópavogi séu 22 talsins. Verkföllin verði ótímabundin. Eftir helgi hefjist einnig atkvæðagreiðslur um ótímabundin verkföll í öllum leikskólum Hafnarfjarðar og Fjarðabyggðar.

Félagsfólk í Félagi grunnskólakennara, FG, og Skólastjórafélagi Íslands, SÍ, sem starfar hjá sveitarfélögunum Ölfusi, Hveragerðisbæ og Akraneskaupstað, hafi jafnframt samþykkt verkfallsboðun frá 3. mars næstkomandi. Einn grunnskóli sé í Ölfusi, einn í Hveragerðisbæ og tveir í Akraneskaupstað. Verkfallsboðun nái einnig til félagsfólks sem starfar á skólaskrifstofum sveitarfélaganna. Verkföll grunnskólafélaganna verði tímabundin og standi til og með 21. mars 2025.

Félagsfólk FG, FL og SÍ, sem starfar í fyrrgreindum sveitarfélögum, hafi samþykkt verkfallsboðun með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Kjörsókn hafi í öllum tilfellum verið góð, á bilinu 60 til 100 prósent. Atkvæðagreiðsla hafi staðið dagana 13. og 14. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×