Ronaldo hafði tekjur upp á 260 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2024 en það jafngildir meira en 36,7 milljörðum í íslenskum krónum.
Konur eru að alltaf að fá betri og betri samninga í íþróttaheiminum en þær eiga greinilega enn mjög langt í landi.
Samkvæmt þessari samantekt hjá Sportico þá kemst engin kona inn meðal hundrað tekjuhæsta íþróttafólksins á síðasta ári. ESPN segir frá.
Tekjuhæsta konan var bandaríska tenniskonan Coco Gauff sem fékk mestar tekjur íþróttakvenna eða 30,4 milljónir dollara sem gerir 4,3 milljarða í íslenskum krónum.
Hún var langt frá hundraðasta sætinu á listanum en það skipaði Daniel Jones, leikstjórnandi NFL liðsins Minnesota Vikings sem var með tekjur upp á 37,5 milljónir dollara.
Það hafa verið konur inn á topp hundrað manna tekjulistanum undanfarin ár en ekki margar. Tenniskonan Naomi Osaka var á listanum 2022 og tenniskonan Serena Williams var á listanum 2021.
Ronaldo var tekjuhæstur annað árið í röð þökk sé risasamningi sínum við sádi-arabiska félagið Al Nassr í desember 2022.
Ronaldo er langt á undan næstu mönnum. Í öðru sætinu er bandaríski körfuboltamaðurinn Stephen Curry sem var með 153,8 milljónir dollara í tekjur á árinu 2024. Það er meira en hundrað milljónum dollara, fjórtán milljörðum íslenskra króna, minna en Ronaldo aflaði á sama tíma.
Breski hnefaleikamaðurinn Tyson Fury (147 milljónir dollara) er þriðji en hinir á topp fimm eru argentínski fótboltamaðurinn Lionel Messi (135 milljónir dollara) og bandaríski körfuboltamaðurinn LeBron James (133,2 milljónir dollara).