Handbolti

Hve há eru launin hjá besta hand­bolta­manni heims?

Sindri Sverrisson skrifar
Fjórar milljónir eftir skatt? Mathias Gidsel er besti handboltamaður heims og lykilmaður hjá Dönum sem orðið hafa heimsmeistarar fjórum sinnum í röð.
Fjórar milljónir eftir skatt? Mathias Gidsel er besti handboltamaður heims og lykilmaður hjá Dönum sem orðið hafa heimsmeistarar fjórum sinnum í röð. Getty/Sören Stache

Hinn danski Mathias Gidsel var valinn mikilvægasti leikmaður HM og er af flestum talinn besti handboltamaður heims í dag. Hann hefur nú skrifað undir nýjan samning við þýska félagið Füchse Berlín og hækkað í launum.

Þýska blaðið Bild segir að samkvæmt nýja samningnum, sem gildi til ársins 2029, fái Gidsel um 50.000 evrur í mánaðarlaun. Það jafngildir um 7,3 milljónum íslenskra króna.

Vissulega mjög góð laun en þó ansi lág miðað við til að mynda stærstu fótboltastjörnur heims.

Gidsel hefði þó vel getað tryggt sér hærri laun og er ekki sá launahæsti í sögu handboltans. Mikkel Hansen fékk til að mynda yfir 12 milljónir króna á mánuði í laun hjá PSG á sínum tíma, samkvæmt franska miðlinum L'Equipe.

Gæti fengið meira hjá öðrum félögum

Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlín, viðurkennir í samtali við við Bild að Gidsel gæti hafa fengið hærri laun annars staðar.

„Við uppfylltum allar hans óskir sem við gátum. Hann er enginn vitleysingur - auðvitað hefði hann getað þénað meira með því að fara til Flensburg, Veszprém eða Parísar en það er einmitt þetta sem að gerir hann að þeim manni sem hann er,“ sagði Hanning og bætti við:

„En já, auðvitað höfum við gert eitthvað við launin hans.“

Gidsel hefur verið leikmaður Füchse Berlín frá árinu 2022 en hann kom þá til félagsins frá GOG í Danmörku. Hann viðurkenndi á blaðamannafundi á mánudag að hafa rætt við önnur félög áður en hann skrifaði svo undir nýjan samning við Berlínarrefina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×