Tónlist

Gekk 20 metra á 35 mínútum í tíu gráðu frosti

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Róshildur hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi síðustu fjögur árin.
Róshildur hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi síðustu fjögur árin. Sunna Ben

„Ég var í fjarsambandi og var hrædd um að sofna vegna þeirrar yfirvofandi staðreyndar að um leið og ég myndi vakna yrði komið að kveðjustund,“ segir tónlistarkonan Róshildur. Hún var að senda frá sér lagið Tími, ekki líða og framleiddi sjálf samhliða því tónlistarmyndband. Blaðamaður ræddi við hana um verkefnið.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið: 

Klippa: Róshildur - Tími, ekki líða

Mínus tíu og norðanvindur

Róshildur er fædd árið 1999 og býr í Reykjavík. 

„Í laginu Tími, ekki líða leik ég mér með hraðabreytingar og afturábak upptökur. Ég fór því fljótt að gera tilraunir með myndbandsupptökur í sama stíl, eins og að hraða og hægja á klippum. Þá tók ég ákvörðun um að myndbandið yrði allt tekið upp á ofur hægum hraða og síðan margfaldað í eftirvinnslunni, segir Róshildur um ferlið.

„Eitt dæmi í myndbandinu er fjögurra sekúnda skot þar sem ég geng 20 metra vegalengd, en það tók mig 35 mínútur vegna þess hve hægt ég gekk. Og það í -10 gráðum og norðanvindi,“ segir Róshildur kímin.

„Afurðin er þó gullfalleg taka þar sem sólin hreyfist hraðar en ég og tekur fram úr mér. Sem er í raun bein túlkun á texta lagsins.“

Kom til hennar á koddanum

Lagið skiptist upp í nokkra kafla sem eru ólíkir hliðar-raunveruleikar fyrir Róshildi, mis draumkenndir og mismunandi á litinn.

„Ferðalagið sem á sér stað í myndbandinu er flakk á milli þessara heima. Ég vildi ná að túlka það hvernig lagið hljómar fyrir mér, í mynd.“

Hugmyndin að laginu kom til Róshildar á koddanum, milli svefns og vöku.

„Ég var í fjarsambandi og var hrædd um að sofna vegna þeirrar yfirvofandi staðreyndar að um leið og ég myndi vakna yrði komið að kveðjustund. Þaðan kemur línan „Ég neita að sofna, svo tíminn líði ekki án mín.

Það var upphafspunkturinn en svo stækkaði lagið út í fleiri hugmyndir út frá þessari stjórnleysis tilfinningu gagnvart tímanum, sem líður alltaf annað hvort of hægt eða of hratt.“

Harkið mikill kennari

Róshildur kom fram á sjónarsviðið árið 2021 þegar hún gaf út sitt fyrsta lag Keyra/bremsa. Hún segist hafa lært mikið af bransanum síðustu ár.

„Lærdómsríkast er alltaf að koma fram á tónleikum og ég nýt þess meira og meira í hvert skiptið. Þegar ég er ein á sviðinu með allar græjur er mikil ábyrgð að ná bæði að performera og spila réttu nóturnar á réttum tíma. 

Á Airwaves í ár fékk ég trommara með mér og það var algjör uppljómun, bæði hvernig tilkoma hans lyfti tónleikaupplifuninni upp á næsta plan en einnig samveran á sviðinu.

Harkið hefur líka kennt mér margt. Þegar ég sé ein um að semja, útsetja og flytja lögin, og í þessu tilviki, framleiða tónlistarmyndband, þarf ég virkilega að standa með og hafa trú á verkunum mínum. Ég er til dæmis ótrúlega stolt og ánægð með þetta nýja lag Tími, ekki líða og myndbandið. 

Það er svo gefandi að fylgja eigin hugmyndum eftir, framkvæma þær og njóta uppskerunnar, þó það reyni mikið á úthaldið í ferlinu.“
Róshildur kom fram á tónleikum í Frakklandi. Hún segist læra mikið af því að koma fram og sér gjarnan um allt sem kemur að tónlistinni hennar frá A-Ö.Picscyns

Róshildur stefnir á plötuútgáfu á þessu ári sem verður þá hennar fyrsta breiðskífa.

„Ég spólaði aðeins yfir mig í tónleikaspili hér í lok síðasta árs og er núna að einbeita mér meira inn á við, að semja, útsetja og skapa. 

Til þess síðan að gefa út með plötuna með stæl og farið þá aftur í framkomu-gírinn, með nýtt efni. Með fram því er ég byrjuð að semja fyrir leikhús og dansverk og finnst það mjög skemmtilegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.