Handbolti

Valskonur í Eyjum þegar öllu var frestað: „Brast nú út smá hlátur“

Sindri Sverrisson skrifar
Valskonur höfðu varann á og voru mættar til Vestmannaeyja í gær en það virðist ekki hafa dugað til.
Valskonur höfðu varann á og voru mættar til Vestmannaeyja í gær en það virðist ekki hafa dugað til. Vísir/Anton Brink

Handknattleikssambandið og körfuknattleikssambandið hafa bæði tekið ákvörðun um að fresta öllum þeim leikjum sem voru á dagskrá í kvöld, vegna rauðrar viðvörunar frá Veðurstofu Íslands.

Í körfuboltanum voru engir leikir á dagskrá hjá liðunum í efstu deildum meistaraflokka en í handboltanum stóð til að spila í 8-liða úrslitum Powerade-bikars kvenna.

Á meðal leikjanna í bikarnum, sem snúast um það að komast í sjálfa úrslitavikuna í keppninni, er viðureign ÍBV og Vals. Meistarar Vals komu til Vestmannaeyja í gær, sem og dómarar leiksins, en þó verður ekkert af því að spilað verði í kvöld vegna þess veðurofsa sem er í Eyjum líkt og víða annars staðar á landinu.

„Við komum í gærkvöldi, út af veðurspánni. Við vorum uppi á hóteli núna klukkan tvö að klára vídjófund og ég var svo með smá peppræðu í lokin, og þá kemur Hlynur Morthens markmannsþjálfari með nýjar fréttir frá HSÍ um að það væri búið að fresta leiknum,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna.

„Það brast nú út smá hlátur og fólk vissi ekki hvort það ætti að trúa þessu,“ segir Ágúst léttur en Valsliðið mun gera gott úr málum, fá sér mat á Einsa kalda og halda létta spurningakeppni í kvöld í stað þess að spila handbolta. Engin ástæða er til að ergja sig á þeirri ákvörðun að fresta leiknum:

„Þetta er bara ákvörðun sem almannavarnir taka. Það er stórbilað veður eins og er. Þetta er bara mjög eðlilegt og sem gamall björgunarsveitarmaður tel ég þetta vera rétta ákvörðun,“ segir Ágúst.

Hann segir áætlað að leikurinn fari fram klukkan 18 á morgun, og að liðin mætist svo í deildarleik í hádeginu á laugardag. Valskonur verði því í Eyjum þar til síðdegis á laugardag og haldi svo heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×