Þorrablót ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnes- og Grafningshreppi fór fram síðastliðinn föstudag. Tæplega 200 gestir sóttu blótið. Daginn eftir fór annað þorrablót fram, þá í Þorlákshöfn, sem um 160 manns sóttu.

Fyrst var greint frá veikindum í kjölfar þorrablóts Hvatar í gær en nú liggur fyrir að tugir gesta á seinna blótinu hafi einnig tilkynnt um veikindi.
Samskipti við veisluþjónustuna prýðileg
Formaður þorrablótsnefndar Hvatar segir fyrsta viðbragð hafa verið að leiðbeina fólki um að tilkynna veikindi sín.
„Við tilkynntum þetta til heilbrigðiseftirlits Suðurlands og höfum verið að vinna með þeim og verið að veita upplýsingar eins og þarf,“ segir Birgir Leó Ólafsson, formaður þorrablótsnefndar Hvatar.
Þungt hljóð sé í fólki í samfélaginu vegna málsins. „Þeir sem lenda í þessu, að veikjast, eru auðvitað ekki ánægðir og líður bara ekki vel.“ Grunur er um matarborna sýkingu, en sama veisluþjónusta sá um bæði blót. Þó liggur ekki fyrir hvort um matvælaborna sýkingu var að ræða. Birgir segir viðbrögð veisluþjónustunnar hafa verið til fyrirmyndar.
„Samskiptin sem hafa farið fram hingað til hafa verið mjög opin og mér finnst þeirra viðbragð hafa verið mjög gott.“
Enn að átta sig á umfanginu
Rannsókn málsins er nýhafin en sóttvarnalæknir, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnun koma að henni. Forstjóri MAST hvetur fólk sem var á þorrablótunum til að tilkynna um veikindi ef þau koma upp. Greining á sýnum úr matvælum liggi ekki fyrir.

„Við getum í raun og veru ekki svarað núna hvaða orsakavaldur er fyrir þessari sýkingu,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST.
„Ég held að tilkynningar séu að detta í 200 manns, en við erum ennþá að ná utan um umfangið.“