Reykholt er byggðakjarni í Bláskógabyggð þar sem íbúum fjölgar stöðugt enda mikið byggt á staðnum. Þar eru líka öflugar garðyrkjustöðvar og því stór lottóvinningur að finna allt þetta heita vatn í ört stækkandi samfélagi.
Það voru starfsmenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða á Selfossi, sem fundu allt þetta heita vatn með bornum Trölla.
„Við vorum afskaplega heppin, fengum vatn í fyrstu tilraun, 15 til 20 sekúndu lítra af hundrað gráðu heitu vatni, þannig að við erum gríðarlega ánægð með árangurinn,” segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.
„Við erum náttúrulega búin að vera að vinna í þessu með Ísor núna í tvö ár að staðsetja svona vinnsluholur, tókum prufuholur,” segir Helgi.

Oddvitinn segir að heita vatnið eigi eftir að nýtast mjög vel.
„Já, já, það mun náttúrulega nýtast í Reykholti í íbúðabyggðina og garðyrkjuna. Okkur hefur fjölgað svo mikið að við þurfum á þessu vatni að halda og við sjáum fram á enn meiri stækkun en okkur hefur fjölgað um 56% í Reykholti frá 2020. Og frá 2020 höfum við líka úthlutað lóðum fyrir um 100 íbúðir,” bætir Helgi við.

Heita vatnið fannst á 392 metra dýpi. En Bláskógabyggð ætlar að láta bora meira eftir heitu vatni og nú á að fara með borinn Trölla á Laugarvatn og freista þess að finna líka vatn þar á planinu við Menntaskólann að Laugarvatni.
