Veður

Hviður yfir 40 metra á sekúndu á morgun

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Útlit er fyrir slæma færð víða um land á morgun.
Útlit er fyrir slæma færð víða um land á morgun. Vísir/Vilhelm

Veður verður rólegt í dag en það er skammvinn sæla því útlit er fyrir stórviðri í flestum landshlutum á morgun. Í kvöld nálgast kröpp lægð úr suðri og það gengur í austan 18 metra á sekúndu með rigningu og snjókomu víða, á morgun fara hviður sums staðar yfir 40 metra á sekúndu á norðanverðu landinu.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Þar segir að næsta lægð fylgi strax í kjölfar ið og að hún gangi norður yfir landið á morgun og sé afar djúp.

Spár gera ráð fyrir að lægðarmiðjan verði yfir vestanverðu landinu um hádegisbil, þá verði skollinn á sunnan stormur á austurhluta landsins en annars staðar verði áttin breytileg og vindur hægari. Rigning verður víða um land og hiti á bilinu 2 til 8 stig en líkur á snjókomu norðvestantil.

Seint um daginn verður lægðin komin norður fyrir land. Þá gengur í vestan og suðvestan 20 ti l28 metra á skúndu og kólnar með snjókomu eða éljum en styttir upp á Norðaustur- og Austurlandi. Annað kvöld dregur svo úr vindi sunnan heiða.

Það er sem sagt útlit fyrir slæmt veður í flestum landshlutum á morgun en versta veðrið verður bundið við austurhluta landsins fyrri part morgundagsins samkvæmt nýjustu spám Veðurstofunnar. Síðdegis og um kvöldið er spáin einnig afar slæm fyrir Vestfirði og Norðurland. Suðvesturhluti landsins sleppi best.

Þó kemur fram að staðan sé býsna viðkvæm og að smá tilfærsla á lægðinni geti breytt spánni töluvert.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Suðvestan 10-18 m/s og éljagangur, en bjart að mestu um landið norðaustanvert. Vægt frost. Bætir heldur í vind um kvöldið.

Á miðvikudag:

Suðvestan 13-20 og él, en áfram þurrt norðaustanlands. Hvessir seinnipartinn og hlýnar með rigningu eða slyddu, víða sunnan 20-28 m/s (stormur eða rok) um kvöldið.

Á fimmtudag:

Sunnan 23-30 m/s (rok eða ofsaveður) um morguninn og talsverð rigning. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast í hnúkaþey á norðaustanverðu landinu. Snýst í suðvestan 10-18 eftir hádegi með éljum og kólnandi veðri, fyrst vestast á landinu.

Á föstudag:

Sunnan og suðvestan 10-18 og snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Vægt frost.

Á laugardag:

Vaxandi sunnanátt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri. Áfram þurrt norðaustantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×