„Það er búið að vera mjög mikið að gera síðasta sólarhringinn,“ sagði Stefán Kristinsson varðstjóri við fréttastofu rétt upp úr átta.
„Við erum búin að taka 140 sjúkraflutninga og síðasta sólarhring voru einhver 26 útköll á dælubíla og megnið vegna vatnsleka,“ sagði hann einnig. Þar hafi vatnsbrunnar ekki haft undan magni regnvatns og flætt inn í hús.
Ný vakt sem tók við klukkan sjö í morgun var þegar búin að fá þrjár tilkynningar um vatnsleka á fyrsta klukkutímanum. „Þar af einn stór í Kópavogi,“ sagði Stefán. „Bílakjallari og geymslur sem eru stappfull af vatni.“
Um 140 sjúkraflutningar þykir óvenjumikið en að sögn Stefáns tengist það óveðrinu ekki sérstaklega þó einhver hálkuslys hafi bæst í við hefðbundin útköll.

Pollar leika landann grátt
Stórir pollar og vatnselgir hafa myndast víða um höfuðborgarsvæðið bílstjórum og öðrum til mikilla ama.

Fréttastofu hafa borist myndir frá Hringhamri í Hafnarfirði þar sem gríðarlega stór pollur hefur myndast yfir allan veginn þannig erfitt er að komast yfir hann.
Nú í morgun bárust fleiri myndir frá Hringhamri þar sem sést að vatnið við hringtorgið hefur streymt ofan í nálæg undirgöng sem eru nú komin algjörlega undir vatn.

Veistu meira um málið? Áttu myndir af pollum, vatnselgum eða vatnslekum? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is.