Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunnar. Þar segir að tilkynningum sem berast stofnuninni um dauða og veika villta fugla hafi fækkað. Þá hafi fuglainflúensa ekki greinst í þeim sýnum úr fuglum sem rannsökuð hafa verið síðustu daga.
„Matvælastofnun telur ekki tímabært að álykta að sýking í villtum fuglum sé í rénun og biður fólk að vera áfram vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum og að tilkynna stofnuninni um veika og dauða fugla sem það sér,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að í gær hafi Matvælastofnun borist niðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ á Keldum á sýnum sem tekin voru úr áðurnefndum refi.
Íbúi hafi séð refinn og tekið eftir því að hann væri mjög slappur. Þá hreyfði refurinn sig lítið og var valtur á fótunum. Matvælastofnun hafi verið tilkynnt um refinn og reyndar refaskyttur fengnar til að aflíafa hann. Síðan var hræið sent til rannsóknar á Keldum þar sem greiningin fór fram.
„ Í ljósi þessa vill Matvælastofnun biðja fólk að vera líka vakandi fyrir sjúkdómseinkennum eða óeðlilegri hegðun í refum og senda stofnuninni tilkynningu ef það verður vart við veika eða dauða refi,“ segir í tilkynningunni.
Þá er bent á að fleiri spendýr, svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu.
„Því miður kemur fyrir að fólk tekur mýs og heldur þær í búrum innanhúss. Matvælastofnun vill benda á að það er varasamt vegna smithættu, auk þess sem það er óheimilt samkvæmt lögum um velferð dýra og það sama á við um öll önnur villt dýr.“