Reynir og Sólartún sóttu um áfrýjunarleyfi fyrir Hæstarétti. Það var mat þeirra að málið hefði verulegt almennt gildi þar sem fáir dómar hefðu fjallað um tiltekna grein höfundalaga. Með dómi Landsréttar væri verið að þrengja verulega að heimildum fjölmiðla til að vitna í aðra fjölmiðla án þess að heimildar væri aflað sérstaklega fyrirfram.
Þá væri mikilvægt að starfsumhverfi fjölmiðla væri ekki háð umfangsmiklum takmörkunum. Með dómi Landsréttar væri búið að reisa Mannlífi verulegar skorður til að starfa á sviði fjölmiðlunar. Þar að auki væri dómur Landsréttar bersýnilega rangur.
Hæstiréttur hins vegar sagði að málið hefði ekki verulegt almennt gildi, það varði ekki sérstaklega mikilvæga hagsmuni Reynis og Sólartún. Einnig væri ekki séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur.