Sem þó viðurkennir að hafa alveg orðið vör við ákveðna neikvæðni í garð sjálfbærnimálanna undanfarið; eða þreytu.
„Umræðan einkennist svolítið af því hvað þessi mál eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki og mikill kostnaður. Að mínu mati liggja þó mikil viðskiptatækifæri í þeim breytingum sem við erum að fara í gegnum núna,“ segir Þóra og bætir við:
„Ég tel að ef við myndum opna augun meira fyrir málaflokknum með jákvæðu hugarfari kæmi í ljós að þessi viðskiptatækifæri eru hreinlega risastór.“
Í tilefni Janúarráðstefnu Festu, fjallar Atvinnulífið um sjálfbærnimálin í gær og í dag.
Málaflokkur sem stækkar og stækkar
Janúarráðstefna Festu hefst klukkan 12.30 í Hörpu í dag, en frá árinu 2017 hefur þessi ráðstefna verið stærsti viðburður atvinnulífsins um sjálfbærni. Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér.
Þóra er viðskiptafræðingur að mennt, með meistaragráðu í viðskiptaþróun og nýsköpun frá Copenhagen Business School, með áherslu á sjálfbærni.
Þóra er ein þeirra sem heldur erindi í dag, en hún hefur starfað í sjálfbærnimálunum hjá Advania síðastliðin fimm ár.
Sem í þessum málaflokki telst ágætis starfsaldur.
„Umræðan var meira um samfélagslega ábyrgð fyrir nokkrum árum síðan, síðan tók sjálfbærnin meira við,“ segir Þóra þegar hún rifjar upp fyrstu misserin í sínu starfi.
„Þá vorum við meira að vinna í málum eins og merkingar á salernum, jafnréttismálunum styrkjamálum fyrir góðgerðasamtök, flokkuninni hér innanhús, einstaka veffundum og fleira sem telst samfélagslega ábyrgt fyrir rekstur að gera,“ segir Þóra og bætir við:
„Sem við auðvitað vinnum að enn. Jafnréttismálin eru til dæmis alltaf ofarlega og enn vantar fleiri konur í tækni.“
Heilt yfir, er málaflokkurinn þó orðinn mun stærri og víðfeðmari en áður.
„Það bætist eitthvað við á hverju ári. Kröfurnar eru orðnar meiri en áður. Ekki aðeins frá viðskiptavinum heldur líka eigendum fyrirtækja. Lagalegar skyldur eru orðnar meiri en áður og gagnasöfnunin fyrir sjálfbærniskýrslurnar hefur orðið stærri og meiri.“
En talandi um sjálfbærniskýrslurnar; Eru þær ekki gott dæmi um hvernig mikil vinna fer í skýrslugerð sem fólk eðlilega veltir síðan fyrir sér hvort séu að breyta einhverju?
„Já ég hef oft hugsað þetta sjálf. Hvort það sé virkilega einhver sem les þetta,“ segir Þóra og hlær.
En þessu fylgir samt margt jákvætt. Vinnan á bakvið þetta hefur vissulega aukist mikið en hún er líka orðin faglegri en áður.
Evrópusambandið er síðan alltaf meira og meira að færa okkur inn í sama mótið, sem þýðir að upplýsingar um sjálfbærni fyrirtækja eru að verða meira samanburðarhæfar; ólíkt því sem áður var þegar allir voru að gera hlutina bara einhvern veginn.“
Allt sé þetta þó að endurspegla hvernig sjálfbærnin sé hluti af vegferð. Þar sem enn er verið að ákveða og móta reglurnar.
„Á þessu ári munu til dæmis fjárhagslegu upplýsingarnar okkar og sjálfbærniskýrslan sameinast í eina skýrslu. Það er visst skref. Í framtíðinni er síðan óráðið hvernig þetta verður nákvæmlega. Hver veit nema að eftir fimm ár þurfi fyrirtæki bara að fylla út einfalt form af skýrslu eða markaðsdeildin að útbúa eitthvað fræðslumyndband?“

Spennandi samstarf
Megináhersla ráðstefnunnar í ár er virðiskeðjan. Því tengt, ætlar Þóra að segja frá samtökum sem Advania eru meðlimir í og heita Responsible Business Alliance (RBA).
Samtökin voru stofnuð árið 2004 og þá af raftækjaframleiðendum. Í dag teljast meðlimir hins vegar um 600 talsins, mörg hver í upplýsingatæknigeiranum en eins hafa aðrir bæst við. Til dæmis leikfangaframleiðendur.
Að sögn Þóru, voru flestir stærstu birgjar Advania þegar í samtökunum. Og útskýringin er þessi:
„Sem upplýsingatæknifyrirtæki tengist vinnan okkar í virðiskeðjunni mikið þeim viðskiptasamböndum sem við eigum við aðila sem við seljum lausnir frá. Birgjarnir okkar eru oft stór fyrirtæki og þau eru einfaldlega svo stór að þetta eru ekki aðilar sem maður kallar auðveldlega eftir viðbótarupplýsingum um hvernig fyrirtækin ætli sér að vinna að þessum ferlunum eða hinum.“
Sem þó skiptir verulega miklu máli, því það er komin meiri krafa á fyrirtæki að þekkja hvernig þeirra birgjar eru að standa sig í ýmsum málaflokkum.
Sem dæmi er hætta á að mannréttindi og aðbúnaður starfsfólks séu ekki virt í ákveðnum framleiðslulöndum.
Að þessu sögðu, segir Þóra að síðustu árin hafi þó margt breyst.
Augljóst er að margir af stóru birgjunum eru farnir að leggja mikið í sjálfbærnimálin og að þeim starfa víðast hvar fjölmennur hópur fólks og mikið af upplýsingum eru nú aðgengilegar.
„En ef við viljum fara eitthvað á dýptina, auðveldar það okkur að vera aðili að RBA því þannig fáum við einfaldlega meiri upplýsingar. Í gegnum RBA framkvæmum við áhættumat á okkar stærstu birgjum.“
Þá sé enn einn ávinningurinn fyrir Advania; þjónustan sjálf.
„RBA er með aðsetur víða og þá sérstaklega á þeim stöðum þar sem mikið af fyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum eru að láta framleiða fyrir sig. Ef að niðurstöður úr áhættumati benda til þess að einhver birgi sé ekki að standa sig nægilega vel, getum við beðið RBA að framkvæma úttekt fyrir okkar hönd.“ segir Þóra og bætir við:
„Það er mikill styrkur enda ættum við erfitt með að framkvæma slíka úttekt sjálf“

Að kveikja á fleiri ljósaperum
Þóra segir margt spennandi í gangi í heimi upplýsingatækninnar sem augljóslega endurspeglar breyttar áherslur.
„Það eru til dæmis margir að hugsa um hringrásarhagkerfið,“ segir Þóra og nefnir dæmi:
Framleiðendur eru að vinna í því að lengja líftíma á tölvum og búnaði.
Og síðan eru aðilar eins og við, sem erum að leggja meiri áherslu á viðhalds- og viðgerðarþjónustu.
Eða að hjálpa viðskiptavinum að viðhalda tölvum og búnaði til að halda öllu í notkun lengur.“
Heilt yfir, séu málin þó enn í farvegi.
„Ég tel okkur enn vera á ákveðnu fræðslustigi. Sem þýðir að öll þekkingarmiðlun er af hinu góða. Það er til dæmis ákveðið aðgengi að þekkingu fyrir okkur að gerast aðili að samtökum eins og RBA.“
Aðspurð um góðu ráðin segir Þóra.
„Ég myndi segja að við ættum að vera óhræddari við að hafa samband við aðra og leita hjálpar enda lykilatriði að við hjálpumst að. Þetta gildir bæði um að tengslanetið okkar hér heima og erlendis, því það er engin ástæða fyrir neinn að reyna að finna hjólið upp á nýtt,“ segir Þóra og undirstrikar mál sitt með skemmtilegu ensku orðatiltæki:
Think global, act local.
„Við eigum alltaf að velta því fyrir okkur hvernig aðrir eru að gera hlutina. Og hvað af því sem þeir gera, gæti nýst okkur.“
Þóra segir málaflokkinn oft taka á.
Þegar umræðan er neikvæð eins og hún hefur verið undanfarið, er auðvelt að taka hlutina inn á sig.
Þannig að já, það þarf vissa seiglu til að geta staðið í þessu.
En ef við einblínum meira á þetta jákvæða, eins og í öllu öðru, þá er alltaf hægt að sjá tækifæri og fleira gott í stöðunni.“
Sem dæmi segir Þóra.
„Það er til dæmis oft verið að tala um hvað málaflokkurinn kallar á mikinn kostnað. En það þarf ekki endilega að vera svo. Því oft er hægt að finna aðrar leiðir til að koma hlutunum áfram án þess að stofna til mikils kostnaðar.“
Margt jákvætt hafi líka þegar sýnt sig.
„Fyrst þegar fólk heyrir orðið sjálfbærni fyrirtækja hugsa margir strax eingöngu um umhverfismálin en ég tel að sjálfbærni snúist í raun um allt sem fyrirtæki gerir í rekstri, nema fjármálin sjálf. Því sjálfbærnin snýst mikið um mannauðsmálin, góða stjórnarhætti, hringrásina og fleira. Og því meira sem við fræðum um þetta, því meiri líkur eru á að það kvikni á fleiri ljósaperum.“