Í tilkynningu segir að Drífa muni stýra og þróa fræðslu- og þjálfunarmálum fyrirtækisins, ásamt því að veita starfsfólki stuðning í daglegum störfum. Drífa hefur nú þegar hafið störf.
„Drífa hefur víðtæka reynslu af þróunarstörfum í mannauðsmálum, sem snúa bæði að almennri starfsþróun og verkefnastjórnun. Drífa er grunnskólakennari að mennt úr Kennaraháskóla Íslands og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Starfaði hún seinast sem verkefnastjóri í Sjálandsskóla í Garðabæ, mannauðsstjóri hjá Klettabæ og aðstoðarskólastjóri í Grunnskólanum í Stykkishólmi.
Staða fræðslustjóra er ný staða innan Samkaupa, en fyrirtækið hefur sett sér metnaðarfulla stefnu í fræðslu- og þjálfunarmálum sem unnið hefur verið að síðustu ár,“ segir í tilkynningunni.
Helstu markmiðin eru að fræðsla og þjálfun verði viðurkennd leið til að ná árangri á öllum sviðum fyrirtækisins. „Heilt yfir á fræðsla og þjálfun að vera til hagsbóta fyrir allt starfsfólk, stjórnendur og viðskiptavini Samkaupa. Ég hlakka til að innleiða mína þekkingu, bæði í kennslu og mannauðsmálum í þessari stöðu, og er spennt að takast á við nýjar áskoranir á dagvörumarkaði, enda nokkuð ólíkur vinnustaður frá kennslustofunni,“ er haft eftir Drífu Lind.
Samkaup reka rúmlega 60 smávöruverslanir víðs vegar um landið undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland.