Heitustu stuðningsmenn Milan, eða Milan ultras, ákváðu að steinþegja á leiknum í dag til að mótmæla eignarhaldi Cardinale. Þess vegna heyrðist aðeins ómurinn af stuðningssöngvum þeirra sem fylgt höfðu Parma á leikinn, í frekar undarlegu andrúmslofti á San Siro samkvæmt ítölskum miðlum.
Hvort þessi hegðun stuðningsmanna hafði einhver áhrif á leikinn er óvíst en honum lauk með hádramatískum 3-2 sigri Milan.
Parma komst yfir í tvígang, með mörkum frá Matteo Cancellieri og Enrico Delprato. Christian Pulisic, landi eigandans Cardinale, jafnaði í 1-1 úr vítaspyrnu á 38. mínútu en Parma komst í 2-1 þegar tíu mínútur voru eftir.
Tvö mörk frá Milan í uppbótartíma
Stuðningsmenn Milan klöppuðu þá í kaldhæðni fyrir eigendum félagsins en enn átti nóg eftir að gerast. Strahinja Pavlovic virtist hafa jafnað metin á 88. mínútu, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Í staðinn náði Tijjani Reijnders að jafna eftir stungusendingu í uppbótartíma, og enn var tími til stefnu fyrir sigurmark.
Parma sendi marga menn fram og var nálægt því að skora en í staðinn brunuðu heimamenn fram í skyndisókn og Samuel Chukwueze náði að koma boltanum í netið og tryggja Milan 3-2 sigur, fyrir framan Kyle Walker sem var áhorfandi á leiknum í dag eftir komuna frá Manchester City.
Eftir sigurinn er Milan með 34 stig í 6. sæti deildarinnar en Parma er í 16. sæti með 20 stig.