Það verður ekki annað sagt að Bournemouth hafi farið illa með Forest í dag. Justin Kluivert skoraði eina mark fyrri hálfleiks og lagði svo upp annað mark heimamanna þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Dango Ouattara með markið og var hann aftur á ferðinni þegar rúm klukkustund var liðin af leiknum.
Á milli marka Outtara hafði Kluivert komið boltanum í netið en markið dæmt af. Outtara fullkomnaði þrennu sína á 87. mínútu og Antoine Semenyo kórónaði frábæran leik heimaliðsins með fimmta marki þeirra í uppbótartíma. Lokatölur 5-0 og Bournemouth nú í 6. sæti með 40 stig á meðan Forest er í 3. sæti með 44 stig.
Iliman Ndiaye reyndist hetja Everton á útivelli gegn Brighton. Skoraði hann sigurmark leiksins á 42. mínútu af vítapunktinum. Sigurinn þýðir að Everton er nú með 23 stig, sjö frá fallsæti á meðan Brighton er í 9. sæti með 34 stig.
Jan Bednarek kom Southampton óvænt yfir gegn Newcastle þegar tíu mínútur voru liðnar. Alexander Isak jafnaði metin úr vítaspyrnu á 26. mínútu og sænski framherjinn kom svo Newcastle yfir fjórum mínútum síðar, staðan 1-2 í hálfleik.
Sandro Tonali bætti við þriðja marki Newcastle í upphafi síðari hálfleiks. Það var mark dæmt af heimamönnum undir lok leiks og lauk leiknum með 3-1 sigri gestanna. Southampton er því sem fyrr á botni deildarinnar með sex stig á meðan Newcastle er í 5. sæti með 41 stig.