Erlent

Eld­haf við stóra olíu­vinnslu í Rúss­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin í nótt gæti verið sú umfangsmesta sem Úkraínumenn hafa gert í Rússlandi hingað til.
Árásin í nótt gæti verið sú umfangsmesta sem Úkraínumenn hafa gert í Rússlandi hingað til. Skjáskot

Úkraínumenn gerðu í nótt umfangsmikla drónaárás á nokkur skotmörk í Rússlandi. Árásin beindist að mestu gegn skotmörkum í Ryazan og þá sérstaklega olíuvinnslu þar og orkuveri. Árás var einnig gerð á verksmiðju í Bryansk, þar sem íhlutir í rafmagnstæki og vopn eru framleiddir.

Árásin gæti verið sú stærsta frá Úkraínu hingað til. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir 121 dróna hafa verið skotinn niður yfir þrettán héruðum landsins. Þar á meðal hafi sex drónar verið skotnir niður yfir Moskvu.

Olíuvinnslustöðin í Ryazan er ein af stærstu olíuvinnslum Rússlands. Herforingjaráð Úkraínu segir árásina á vinnslustöðina lið í kerfisbundnum árásum á olíuinnviði Rússlands. Þær muni halda áfram þar til Rússar hörfi frá Úkraínu.

Myndbönd frá henni sýna mikið eldhaf þar og fólk flýja á hlaupum.

Í yfirlýsingum frá Úkraínumönnum kemur meðal annars fram að um níutíu prósent af því sem framleitt sé í verksmiðjunni í Bryansk sé notað til framleiðslu hergagna. Þar á meðal framleiði verksmiðjan íhluti í flugskeyti í loftvarnarkerfi, í langdrægar skotflaugar og orrustuþotur.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir sex dróna hafa vera flogið á verksmiðjuna og að henni hafi verið lokað. Engan mun hafa sakað.

Mikill eldur er sagður hafa kviknað í verksmiðjunni en BBC hefur eftir ríkisstjóra Bryansk að viðbragðssveitir séu að störfum í verksmiðjunni en hve umfangsmiklar skemmdirnar eru liggur ekki fyrir.


Tengdar fréttir

Með áhyggjur af stöðu hagkerfisins

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur sífellt meiri áhyggjur af stöðu hagkerfis Rússlands. Skortur á vinnuafli, verðbólga og háir stýrivextir hafa gert stöðuna erfiða, þó hagvöxtur mælist í Rússlandi.

Fleiri Kimdátar væntanlegir í Kúrsk: „Það er bara áfram og áfram“

Úkraínskir hermenn í Kúrskhéraði í Rússlandi segja dáta Kims Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafa lært mikið af reynslu síðustu vikna. Þeir sækja fram í stærri hópum en Rússar og án stuðnings skrið- og bryndreka og stoppa þeir ekki eða hörfa vegna mikils mannfalls.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: „Heimurinn er að breytast, hvað sem er getur gerst“

Væntanleg embættistaka Donalds Trump í Bandaríkjunum hefur enn áhrif á stríðið í Úkraínu en Trump hefur sagt að það gæti tekið sex mánuði að binda enda á átökin. Þá eru valdamiklir menn í Rússlandi sagðir óánægðir með það hvað dregið hefur úr stríðinu og þau slæmu áhrif sem það hefur haft á hagkerfi Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×