Innlent

Maðurinn hafi talið sig vera að fara að hitta stúlku á fermingar­aldri

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi og litið mjög alvarlegum augum.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi og litið mjög alvarlegum augum. vísir/vilhelm

Karlmaður á Akranesi, sem varð fyrir hrottalegri líkamsárás af hálfu hóps ungmenna, taldi sig vera að fara að hitta stúlku við fermingaraldur þegar ráðist var á hann. Þetta herma heimildir fréttastofu. Nokkrir hafa verið handteknir og yfirheyrðir vegna málsins.

Árásin átti sér stað í desember og er lýst sem hrottalegri. Mbl.is greindi fyrst frá en þar segir að nokkur ungmenni hafi gengið í skrokk á manni sem þau leiddu í gildru með tálbeituaðferð.

Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi segir að manninum hafi verið veittir alvarlegir áverkar þó hann geti ekki farið nánar út í líðan hans en maðurinn sjálfur tilkynnt atvikið til lögreglu.

„Síðan fer myndskeið af þessu á samfélagsmiðla og upptökur þannig það liggur nú fyrir hvað gerðist. Þetta er í rannsókn. Það er búið að handtaka einhverja út af þessu en rannsókn er ekki lokið.“

Árásin til á myndskeiði

Og lítur allt út fyrir að árásarmennirnir hafi sjálfir tekið árásina upp á myndskeið í þeim tilgangi að dreifa því á samfélagsmiðlum. Ásmundur segir að mögulega verði fleiri handteknir vegna málsins. Yfirheyrslur hafi staðið yfir og er málið á lokametrum rannsóknar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun karlmaðurinn, sem búsettur er á Akranesi, hafa talið sig vera að fara að hitta stúlku við fermingaraldur þegar ráðist var á hann.

Hópurinn stundi tálbeituaðferðir

Nútíminn greindi frá því í síðustu viku að hópur ungmenna stundi það að nota tálbeituaðferðir til að lokka til sín meinta barnaníðinga í þeim tilgangi að ganga í skrokk á þeim. Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, sagði svo í kvöldfréttum okkar fyrir viku að nokkuð væri um slíka háttsemi og að hún væri litin grafalvarlegum augum.

Ásmundur tekur undir og segir þetta tiltekna mál á Akranesi grafalvarlegt.

„Og þegar einhverjir úti í bæ, eins og það er orðað, ákveða eitthvað og telja einhverja seka um eitthvað og lokka þá svona til sín. Þetta er náttúrulega grafalvarlegt, grafalvarlegt í raun.“

Og getur verið stórhættulegt? „Algjörlega. Þessum aðila eru veitt það mikið af höggum að þetta hefði getað farið mjög illa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×