Fótbolti

Ís­lendingarnir orðnir fjórir hjá Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir á ferðinni í leiknum fræga gegn Þýskalandi í fyrra. Hún skoraði eitt marka Íslendinga í 3-0 sigri.
Alexandra Jóhannsdóttir á ferðinni í leiknum fræga gegn Þýskalandi í fyrra. Hún skoraði eitt marka Íslendinga í 3-0 sigri. vísir/anton

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í fótbolta, er gengin í raðir Kristianstad í Svíþjóð frá ítalska liðinu Fiorentina.

Samningur Alexöndru við Kristianstad gildir til 2026. Hjá félaginu hittir hún fyrir stöllur sínar í íslenska landsliðinu; Guðnýju Árnadóttur, Hlín Eiríksdóttur og Kötlu Tryggvadóttur.

Í fréttatilkynningu Kristianstad segir að félagið hafi fylgst lengi með Alexöndru og að hún hafi komið á reynslu hjá því 2016, ásamt Guðnýju og Sveindísi Jane Jónsdóttur sem lék einnig í appelsínugula búningnum á sínum tíma.

Alexandra lék með Frankfurt á árunum 2021-22 og fór svo til Fiorentina fyrir tveimur árum. Hér heima lék hún með Haukum og Breiðabliki. Alexandra, sem er 24 ára miðjumaður, hefur leikið 49 landsleiki og skorað sex mörk. Hún lék einnig fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands.

Kristianstad endaði í 4. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Það var fyrsta tímabil liðsins eftir að Elísabet Gunnarsdóttir hætti þjálfun þess. Hún stýrði Kristianstad á árunum 2009-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×