Í umfjöllun Sky fréttastofunnar kemur fram að útgefandinn News Group Newspapers (NGN) hafi frá upphafi hafnað því að hafa aflað upplýsinganna með þessum hætti. Fram kemur að réttarhöldum hafi í tvígang verið frestað að beiðni beggja málsaðila en að dómari hafi hafnað því að fresta fyrirtöku málsins í þriðja skiptið.
Ásakanir prinsins lutu meðal annars að tölvuinnbrotum og öflun persónuupplýsinga með ólöglegum aðferðum. Þá sakaði prinsinn útgefandann um að hafa hylmt yfir ólöglegt athæfi og eyða sönnunargögnum. Réttarhöld hefðu að óbreyttu hafist í gær.
Að sögn lögmanns prinsins fær hann afsökunarbeiðni frá útgáfunni auk þess sem útgáfan mun borga honum umtalsverðar bætur, eins og því er lýst í frétt Sky. Þá var lesin tilkynning frá útgefandanum á blaðamannafundi þar sem fram kom að NGN bæðist afsökunar á framferði The Sun frá 1996 til 2011 og allra ólöglegra athæfa sem notuð hefðu verið við upplýsingaöflun.
Þá baðst NGN jafnframt afsökunar á framferði götublaðsins News of the World sem lagði upp laupana eftir að í ljós kom að blaðamenn þess hefðu nýtt ýmsar ólöglegar aðferðir til að afla upplýsinga sinna, meðal annars með hlerunum. Tekið var fram að afsökunarbeiðninni fylgdi ekki viðurkenning á sekt.