Fótbolti

Víkingur spilar heima­leik sinn í Helsinki

Aron Guðmundsson skrifar
Víkingur-Cercle Brugge Leikur Víkingur - Cercle Brugge í sambandsdeild evrópu á kópavogsvelli.
Víkingur-Cercle Brugge Leikur Víkingur - Cercle Brugge í sambandsdeild evrópu á kópavogsvelli.

Víkingur Reykjavík mun leika heimaleik sinn í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu gegn gríska liðinu Panathinaikos í Helsinki, höfuðborg Finnlands. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Víkingi Reykjavík en um fyrri leik einvígisins gegn Panathinaikos er að ræða og fer hann fram þann 13.febrúar næstkomandi á Bolt Arena, heimavelli HJK Helsinki.

Bolt Arena í Helsinki verður heimavöllur Víkings Reykjavíkur í einvíginu gegn Panathinaikos

Leikvangurinn tekur rúmlega tíu þúsund áhorfendur í sæti og er gert ráð fyrir að um 800 stuðningsmenn Pantahinaikos leggi leið sína til Helsinki á leikinn. 

Víkingar vinna nú að því, í samstarfi við Icelandair að útbúa ferð á leikinn.

„Við höfum staðið frammi fyrir stærri og erfiðari áskorunum en að styðja EuroVikes í umspili um sæti í 16 liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. Tökum yfir Helsinki saman!“ segir í tilkynningu Víkings Reykjvíkur. 

Víkingur lék heimaleiki sína í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar á Kópavogsvelli. Þar sem um útsláttarkeppni er að ræða í framhaldinu er regluverk Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, strangara en áður. Það þýðir að Víkingar geta ekki leikið heimaleikinn á Kópavogsvelli eins og til þessa í keppninni.

Þá standa framkvæmdir yfir á þjóðarleikvangi okkar Íslendinga þessi dægrin og því ekki hægt að spila leikinn þar. 

Víkingar höfðu kannað ýmsa kosti varðandi mögulega leiksstaði. Til að mynda fékkst ekki grænt ljós frá UEFA á að spila leikinn í Færeyjum eða Danmörku af margs konar ástæðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×