Þúsundir íbúa Gasa hafa nú snúið aftur til heimkynna sinna eftir að Ísrael og Hamas sömdu um vopnahlé. Heimkynnin eru þó í flestum tilvikum húsarústir en Sameinuðu þjóðirnar áætla að yfir 60 prósent bygginga á Gasa hafi skemmst eða eyðilagst í loftárásum Ísraelshers.
Langflestir íbúa Gasa, tvær milljónir, eru án heimilis og tekna og reiða sig á neyðaraðstoð til að komast af. Aðstoðin hefur sem betur fer aukist verulega frá því að vopnahlé komst á en 630 flutningabifreiðar hlaðnar neyðargögnum óku inn á svæðið á sunnudag og 915 í gær.

BBC hefur eftir Sam Rose, starfandi framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, að það séu ekki aðeins innviðirnir sem þarfnist endurbyggingar heldur einnig einstaklingurinn og fjölskyldurnar.
„Trámað sem [íbúarnir] hafa upplifað, þjáningin, missirinn, sorgin, niðurlægingin og grimmdin sem þeir hafa mátt þola síðustu sextán mánuði; þetta er langur vegur.“
Heilbrigðisyfirvöld í Palestínu áætla að um 47 þúsund hafi verið drepnir á Gasa og yfir 110 þúsund særðir. Þau hafa ekki upplýst um hlutfall bardagamanna af látnu en segja meirihlutann konur og börn.
„Á hverri götu eru látnir. Í hverju hverfi er fólk undir rústunum,“ segir Abdullah Al-Majdalawi, 24 ára viðbragðsaðili. Fólk sé enn að hringja og tilkynna um ástvini grafna í húsarústum.