Handbolti

„Hann veit á hvaða takka á að ýta til að fá mig í gang“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísl naut sín í botn í kvöld.
Viktor Gísl naut sín í botn í kvöld. vísir/Vilhelm

„Ég er sáttur með þetta, geggjaður leikur,“ sagði mennski múrinn Viktor Gísli Hallgrímsson en hann fór á kostum í marki Íslands þegar strákarnir lögðu Slóveníu á HM í handbolta. Um var að ræða síðasta leik í riðlinum en sigurliðið færi með fleiri stig með sér í milliriðil.

Viktor Gísli bar af í annars frábærri varnarframmistöðu í kvöld en hann átti fjölmargar magnaðar markvörslur. Hann hrósaði hins vegar samherjum sínum en viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Viktor Gísli eftir leikinn magnaða gegn Slóveníu

„Fór allt eftir plani. Spiluðum hörku vörn og náðum að lemja aðeins á þeim. Það var planið, þetta eru leikstjórnendur og finnst ekki þægilegt að láta snerta sig. Það gekk eftir í kvöld.“

„Maður reynir að verja eins og maður getur. Komst í zone-ið helvíti fljótt í kvöld og var vel undirbúinn. Held það sé lykillinn að góðri markvörslu,“ sagði markvörðurinn knái áður en hann hrósaði Roland Eradze, markmannsþjálfara Íslands.

„Hann þekkir mig vel og veit á hvaða takka á að ýta til að fá mig í gang. Gerir þetta einfalt fyrir mig og ég á honum mikið að þakka.“

„Hugsuðum um þetta sem fyrsta leik í milliriðli og höldum áfram að gera það sem við höfum verið að gera,“ sagði Viktor Gísli um framhaldið áður en hann staðfesti að það væri búið að græja yfirdýnu fyrir sig svo hann ætti að vera mjúkur og fínn í komandi leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×