Innlent

Engar fregnir af ofanflóðum í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mikið hefur snjóað á Austfjörðum undanfarið og enn á að bæta í í dag. 
Mikið hefur snjóað á Austfjörðum undanfarið og enn á að bæta í í dag.  Landsbjörg

Ekkert hefur frést af ofanflóðum á Austfjörðum í nótt þar sem er óvissustig vegna snjóflóðahættu og hættustig á Seyðisfirði og Neskaupsstað.

Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati segir að það komi þó ekki í ljós fyrr en í birtingu hvort flóð hafi einhversstaðar fallið á svæðinu.

„Spáin hefur gengið eftir og það er heldur að draga úr úrkomunni núna. Samkvæmt spánni á að draga úr úrkomunni fram yfir hádegi og svo kemur annar hríðarbakki inn síðdegis. Þessu slotar ekki fyrr en síðla kvölds, eða í nótt,“ segir Tómas Jóhannesson,  sem stóð vaktina á Veðurstofunni í nótt. Hann bætir við að þótt ekkert hafi frést af ofanflóðum í nótt eigi menn allt eins von á því því að einhver flóð hafi fallið á svæðinu. „Það sést bara þegar menn fara að svipast um.“

Sökum veðursins eru flestir vegir á Austfjörðum meira og minna ófærir nú í morgunsárið, þar á meðal Fjarðarheiðin. Varðskipið Freyja kom inn á Seyðisfjörð í gær til öryggis en á annað hundrað íbúar á Seyðisfirði og í Neskaupsstað þurftu að yfirgefa heimili sín í gær vegna snjóflóðahættu.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að loknum fundi með Almannavörnum að ekkert ferðaveður verði í dag á svæðinu og því er fólk hvatt til þess að halda sig heima í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×