Nottingham Forest lagði botnlið Southampton að velli, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Með sigrinum jafnaði Forest Arsenal að stigum í 2. sæti deildarinnar. Bæði lið eru með 44 stig, sex stigum minna en topplið Liverpool sem á leik til góða.
Öll mörk Forest komu í fyrri hálfleik. Elliot Anderson, Callum Hudson-Odoi og Chris Wood skoruðu þau. Sá síðastnefndi hefur verið iðinn við kolann í vetur og skorað fimmtán mörk í ensku úrvalsdeildinni.
Þrátt fyrir að vera þremur mörkum undir gafst Southampton ekki upp. Jan Bednarek minnkaði muninn í 3-1 á 60. mínútu og þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma hleypti Paul Onuacho mikilli spennu í leikinn þegar hann skoraði fyrir Dýrlingana.
Forest hélt hins vegar út og fagnaði sínum sjöunda sigri í síðustu átta deildarleikjum.
Southampton hefur aftur á móti tapað fimm leikjum í röð og er rótfast við botn deildarinnar, með einungis sex stig.