Hollenska liðið vann leikinn 37-32 og hefur unnið tvo fyrstu leiki sína. Liðið er komið áfram en mótherjarnir í Norður Makedóníu eru bara með eitt stig.
Það voru mikil læti og ljótar senur í leikslok. Leikmenn hollenska liðsins flúðu inn í klefa í stað þess að stilla sér upp á miðjum vellinum.
Það sást líka að Staffan Olsson, þjálfari Hollendinga, var mjög ósáttur í leikslok.
Fjölmiðlafulltrúi Hollendinga sagði frá því að stuðningsmenn Norður-Makedóníu hefði hrækt á Olsson og kastað hlutum í hann.
„Við áttum engra annarra kosta völ en að fara inn í klefa,“ sagði aðstoðarþjálfarinn Wai Wong við NOS. Liðin stilla sér upp eftir leik og besti maður leiksins er tilkynntur. Það varð ekkert slíkt á dagskrá í kvöld og skiljanlega.
„Svona á ekki heima í handboltahöll,“ hélt Wong áfram og Hollendingar ætla að senda inn kvörtun til Alþjóðahandboltasambandsins. Blóðheitir stuðningsmenn Norður-Makedóníu urðu sér og þjóð sinni til skammar.
Heimsmeistaramótið fer fram í Noregi, Danmörku og Króatíu.