Króatía vann Argentínu í kvöld á sama tíma og Þjóðverjar unnu nágranna sína í Sviss. Þetta voru aftur á móti mjög ólíkir sigrar. Króatar höfðu mikla yfirburði en Þjóðverjar þurftu góðan endasprett til að klára sinn leik.
Króatíska landsliðið fer á kostum á heimavelli á þessu heimsmeistaramóti en liðið vann öruggan fimmtán marka sigur á Argentínu í kvöld. Eftir fjórtán marka sigur í fyrsta leik vann Króatía 33-18 sigur á Argentínu í leik tvö. Króatar voru komnir með ellefu marka forskot í hálfleik, 18-7.
Þýska liðið hefur fengið mun meiri mótstöðu frá Póllandi og Sviss í fyrstu tveimur leikjum sínum en liðið vann tveggja marka sigur á Sviss í kvöld, 31-29.
Þjóðverjar byrjuðu ekki vel eins og í fyrsta leiknum en unnu sig inn í leikinn eins og í sigrinum á Pólverjum. Svisslendingar komust í 5-2 og 7-4 í upphafi leiks en Þjóðverjar voru komnir yfir í stöðunni 9-8. Þýska liðið var síðan einu marki yfir í hálfleik, 15-14.
Liðin skiptust á því að hafa forystuna í seinni hálfleik en Þjóðverjar gerðu nánast út um leikinn með góðum 5-1 kafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 26-25 fyrir Sviss í 30-27 fyrir Þýskaland. Í báðum leikjum sínum á mótinu til þessa hafa Þjóðverjar sýnt styrk sinn á lokakaflanum.
Norðmenn töpuðu á móti Brasilíu í fyrsta leik mótsins en unnu sinn fyrsta leik í dag. Noregur vann þá sextán marka sigur á Bandaríkjamönnum, 33-17, eftir að hafa verið 13-7 yfir í hálfleik.
Ungverjar unnu stórsigur á Gíneu í fjórða leik kvöldsins. Ungverska liðið van ellefu mörkum yfir í hálfleik, 20-9 og vann að lokum sautján marka sigur, 35-18.