Tónlist

Heill hljóðheimur Hildar fer aftur­á­bak

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hildur býður upp á nýjan hljóð-og myndaheim með hennar fyrstu plötu, Afturábak.
Hildur býður upp á nýjan hljóð-og myndaheim með hennar fyrstu plötu, Afturábak. Juliette Rowland

Tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, Afturábak. Þetta er stórmerkilegt í ljósi þess að Hildur hefur um margra ára skeið verið ein þekktasta tónlistarkona landsins, sent frá sér hvern smellinn á fætur öðrum og samið fjölda laga fyrir sjálfa sig sem og aðra tónlistarmenn. Hún segist vera orðin þreytt á að vera oft titluð „söngkonan Hildur“ enda er hún miklu meira en bara það.

„Það er alltaf alvöru batterí að búa til heila breiðskífu,“ segir Hildur hlæjandi í samtali við Vísi þegar það er borið undir hana hvort það sé ekki ótrúlegt mál að þetta sé í fyrsta skipti sem hún hafi gefið út plötu. Hildur hefur enda haft í nógu að snúast undanfarin ár.

Hún hefur komið víða við, hóf ferilinn í indí hljómsveitinni Rökkurró árið 2006 sem söngkona, sellóleikari og lagahöfundur. Hún sneri sér svo að poppinu þegar hún samdi og flutti lagið Fjaðrir í Söngvakeppninni árið 2025. Ári síðar hóf hún formlega sólóverkefnið með smellinum og verðlaunalaginu I'll Walk With You.

Hildur tók svo aftur þátt í Söngvakeppninni svo athygli vakti með eyrnaorminn Bammbaramm árið 2017. Síðan hefur Hildur gefið frá sér tvær EP plötur og starfað síðustu ár sem lagahöfundur og pródúser erlendis og hérlendis með breiðum hópi listafólks ásamt því að kenna lagasmíðar.

Aftur í ræturnar

Hildur gaf út plötuna á afmælisdaginn sinn, þann 1. janúar síðastliðinn. Platan inniheldur tíu lög þar sem Hildur leitar á önnur mið en hún hefur gert áður og lýsir tónlistarkonan hljóðheimi plötunnar sem blöndu af indí, poppi og raftónlist þar sem rödd Hildar fær að njóta sín á íslensku í fyrsta sinn í langan tíma.

„Ferlið tók svo í raun töluvert lengri tíma. Ég var áður að vinna í breiðskífu sem ég ætlaði að gefa út árið 2020, sem var níutíu prósent tilbúin en svo kemur Covid og ég einhvern veginn fæ bara á tilfinninguna að ég eigi ekki að gefa þessa plötu út. Ég var ekki alveg nógu ánægð með hana og ákvað á endanum að gefa hana ekki út.“

Hildur segist því hafa ákveðið að salta verkefnið. Nýju plötuna, Afturábak, byrjaði hún svo að semja 2023 og tók sér svo árið 2024 að fullvinna lögin. Hildur segir lögin á plötunni fjölbreytt, sum minni á gamla poppslagara hennar en önnur séu algjörlega ný af nálinni.

„Áður en ég hóf sólóferilinn og sneri mér að poppinu þá var ég í Rökkurró, sem er miklu meiri indí hljómsveit og það kallaði svo á mig að fara aftur í ræturnar. Ég hef alls ekkert alltaf hlustað bara á popptónlist,“ segir Hildur hlæjandi. Hún segist hafa ákveðið að hafa það ekki greypt í stein hvernig lögin yrðu, heldur skellt sér í stúdíóið til að sjá hvað kæmi út úr því.

„Ég leyfði mér að semja það sem mér datt í hug. Ég er að semja um eitthvað sem ég hafði upplifað á mismunandi tímum, er að horfa mikið til baka, hence the name. Ég hef líka verið að vinna í sjálfri mér og er komin á betri stað og lögunum fylgir samhengi sem maður sér ekki áður. Þetta eru mjög persónulegir textar,“ útskýrir Hildur.

Hildur hefur tekið sér tíma í að skapa bæði hljóð- og myndheim plötunnar.Kjartan Trauner

Karlkyns kollegar ekki settir í söngvaraboxið

Plötunni fylgir svo myndrænn heimur sem hún hefur unnið að með kvikmyndagerðarmanninum og kærastanum sínum Kjartani Trauner. Þegar hafa komið út myndbönd við lög líkt og Alltaf eitthvað og Þúsund skyssur.

„Kjartan er gamall skeitari og tók upp skate myndir þegar hann var yngri og safnar gömlum kamerum og er algjörlega on point þegar hann tekur upp, þannig að við höfum verið að búa til myndaheim þar sem við förum bara eitthvert út og hann tekur með sér gamla kameru og við klífum fjall, eða hvað sem okkur dettur í hug.“

Það er augljóst á verkefninu og plötunni að Hildur er gríðarlegt hæfileikabúnt. Auk þess að hafa samið öll lög og texta á plötunni sá hún um útsetningu, upptökur og pródúseringu á lögunum, auk þess sem Jóhannes Ágúst Sigurjónsson og Hafsteinn Þráinsson voru henni til halds og trausts við pródúseringu á tveimur lögum.

Hildur hefur þrátt fyrir alla hæfileikana oft verið titluð sem söngkona og sá sig knúna til að benda á það á samfélagsmiðlum að hún væri nú töluvert meira en það. Afturábak er þannig algjörlega hennar verk, hún er laga- og textahöfundur, pródúser, upptökustjóri og svo rifjar Hildur meira að segja upp gamla takta og grípur í sellóið á plötunni. Hún segist ekki verða vör við að karlkyns kollegar hennar lendi í hinu sama, að vera einungis titlaðir sem söngvarar.

„Ég geri mér grein fyrir að oft er þetta ekki úthugsað, en þess vegna má vekja athygli á þessu. Við erum ekki margar ennþá sem erum pródúserar (tek fram að það þarf ekki að segja kvenpródúser), þónokkuð fleiri sem erum lagahöfundar (en hallar ennþa á), en við erum gríðarlega mikilvægar fyrirmyndir fyrir stelpur, konur og kvár sem eru að taka skrefin í tónlist og þess vegna er stórt að titla okkur rétt.“

Poppið lifir enn og útgáfutónleikar á næstunni

Hildur segir viðtökurnar við plötunni hafa farið fram úr hennar björtustu vonum og stefnir hún á að tilkynna von bráðar um útgáfutónleika og um útgáfu plötunnar á vínyl. Hún segist spurð stundum skynja að fólk komi henni fyrir í boxi, sem poppdívan sem hún sé og búist við því að hún gefi út alvöru poppslagara og eyrnaorma í hvert sinn.

„Sumir þekkja mig mest vegna I'll Walk With You og svo eru sumir sem þekkja mig mest fyrir Söngvakeppnina, ég hef til dæmis verið kölluð Hildur Bammbaramm,“ segir hún hlæjandi. Hún segir að sér hafi þrátt fyrir þetta aldrei fundist eitthvað eitt lag hafa skilgreint hana.

Hildur sló í gegn með einum af sínum fjöldamörgu eyrnaormum, Bammbaramm í Söngvakeppninni 2017.Mummi Lú

„En auðvitað er það skiljanlegt því að svo margir tengja við þessi lög. Mér finnst samt svo gaman hvað viðtökurnar við Afturábak hafa verið fáránlega góðar, fólk er spennt að upplifa eitthað nýtt og þessi plata fer svo sannarlega með mann í allskonar áttir.“

Sumir tónlistarmenn einblíni á að plötur þeirra séu heildrænt listaverk. Hildur segist hafa einbeitt sér meira að tilfinningunum sínum í þetta skiptið og fjölbreytileika þeirra.

„Auðvitað vill maður að hlustandinn skynji að það sé heild í þessu en ég ákvað að vera ekki eitthvað of mikið að reyna að láta þetta passa saman. Sum lög eru öðruvísi, en svo eru lög þarna eins og Innanímér, sem er popplag í stíl við I'll Walk With You og ég hugsaði bara: „Æ ég dýrka þetta lag og ætla að halda því þarna,“ af því að ég er allskonar og ekkert bara ein týpa.“

Hildur kíkti í rúntinn árið 2021 með Bjarna Frey Péturssyni og Arnfinni Rúnari Sigmundssyni í vefþáttunum Á rúntinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.