„Við þurfum auðvitað að hrista okkur saman. Tala skýrt. Það eru miklar breytingar og frelsi sem fylgir því að þurfa ekki að gera málamiðlanir,“ sagði Þórdís Kolbrún á leið á miðstjórnarfund Sjálfstæðisflokksins í dag þar sem samþykkt var að halda sig við áður boðaðar dagsetningar landsfundar.
Varaformaðurinn segir að frelsinu frá stjórnarsamstarfi fylgi því einnig mikil ábyrgð að vera í stjórnarandstöðu. Flokkurinn ætti að vera ábyrgur í því hlutverki. „Við lifum mjög viðsjárverða tíma og ég held að það skipti máli að fólk sem vill láta taka sig alvarlega hagi sér eftir því,“ segir Þórdís Kolbrún.

Sjálfstæðisflokkurinn ætti að sýna að hann væri ábyrgur, stöðugur og yfirvegaður flokkur. „Sem á glæsta sögu en þarf auðvitað líka að eiga glæsta framtíð. Flokkur sem vill eiga erindi við framtíðina þarf líka að skilja framtíðina,“ segir varaformaðurinn.
Undir niðri liggi auðvitað spurningin um íhaldssemi og frjálslyndi. Það væri viðvarandi verkefni Sjálfstæðisflokksins að finna jafnvægi þarna á milli enda hefði flokkurinn verið búinn til á sínum tíma með sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslyndaflokksins.
„Það er auðvitað ekkert launungarmál og öllum ljóst eftir mín átta ár í ríkisstjórn að ég er frjálslyndur hægrimaður. Ég er hins vegar mikill talsmaður þess að við séum raunverulega að forgangsraða peningum annarra og hvernig við verjum þeim. Fyrir mér er það hægrimál. Síðan að við tölum fyrir víðsynni umbótastefnu sem er næstum aldargamalt hugtak við höfum staðið mjög sterk á og meigum ekki gleyma og ekki týna,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.