Innlent

Kom Kola­portinu fyrir horn og leitar nú langtíma­lausna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hrafn Varmdal er stiginn inn í rekstur Kolaportsins og stefnir að því að gera langtímaleigusamning við Reykjavíkurborg.
Hrafn Varmdal er stiginn inn í rekstur Kolaportsins og stefnir að því að gera langtímaleigusamning við Reykjavíkurborg. Vísir/Vésteinn

Nýr leigutaki er tekinn við Kolaportinu og stefnir að því að gera langtímaleigusamning við borgina, svo halda megi starfseminni áfram. Kaupmenn þar fagna því að hafa ekki þurft að fara út um áramótin. 

Borgaryfirvöld hafa framlengt leigusamning um húsnæði Kolaportsins út janúar. Fyrri rekstraraðili fór í þrot í lok síðasta árs og starfsemi Kolaportsins í óvissu fyrir nýtt ár.

„Ég fór að reyna að hafa samband við borgina og að lokum náði ég að gera tímabundinn samning meðan unnið er að langtímasamning sem myndi geta gengið upp,“ segir Hrafn Varmdal, sem rekur Bolabankann í Kolaportinu og hefur nú tekið við rekstrarkeflinu í Kolaportinu.

Og það er út janúar?

„Það er út janúar, en það verður lengra,“ segir Hrafn, sem leggur áherslu á að næsti leigusamningur feli í sér fyrirsjáanleika til lengri tíma.

Einhver ár í viðbót, þannig að maður geti sett í þetta og haldið áfram. Það er bara næsta skref,“ segir Hrafn. Hann segist þakklátur starfsmönnum borgarinnar, sem hafi sýnt góðan samstarfsvilja og unnið hratt þegar hann leitaði til þeirra, í þeirri von að halda lífi í Kolaportinu.

Kaupmenn í Kolaportinu sem fréttastofa ræddi við voru að vonum nokkuð ánægðir með þessar fréttir, líkt og sjá má í sjónvarpsfréttinni í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×