Handbolti

Thea tryggði Val jafn­tefli með marki á loka­sekúndunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Thea Imani jafnaði alveg undir lok leiksins.
Thea Imani jafnaði alveg undir lok leiksins. vísir / anton brink

Valskonur gerðu 25-25 jafntefli við Malaga þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum EHF-bikarsins í handbolta. Seinni leikur liðanna fer fram á heimavelli Vals um næstu helgi.

Um var að ræða fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum EHF-bikarsins en seinni leikurinn fer fram að Hlíðarenda eftir viku.

Valskonur voru með frumkvæðið nánast allan leikinn en heimalið Malaga var aldrei langt undan. Valur náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleiknum og var með 15-13 forystu að honum loknum.

Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik. Valur var alltaf skrefinu á undan en tókst ekki að slíta heimakonur frá sér. Valur leiddi 23-21 þegar skammt var eftir en Malaga náði að jafna bæði í 23-23 og 24-24 þegar innan við tvær mínútur voru eftir.

Lokamínútan var æsispennandi. Malaga var með boltann og komst í 25-24 með frábæru marki þegar fimmtán sekúndur voru eftir en hornamaður liðsins fór þá inn úr þröngu færi og fann línumaninn galopinn fyrir miðjum teig. 

Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals tók leikhlé og skipulagði síðastu sókn liðsins. Henni lauk með marki frá Theu Imani Sturludóttur þegar fjórar sekúndur voru eftir og leiknum lauk því með 25-25 jafntefli.

Á heimasíðu EHF kemur fram að Þórey Anna Ásgeirsdóttir hafi verið markahæst Valskvenna með sex mörk og Lovísa Thompson og Elín Rósa Magnúsdóttir skorað fimm mörk hvor. Það er því allt hnífjafnt fyrir síðari leikinn um næstu helgi en sigurvegari einvígisins fer í 8-liða úrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×