Handbolti

Sigur hjá Díönu Dögg í Evrópu­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Díana Dögg í landsleik gegn Frökkum fyrr í vetur
Díana Dögg í landsleik gegn Frökkum fyrr í vetur Vísir/EPA

Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir var í eldlínunni með liði Blomberg-Lippe sem tók á móti franska liðinu Dijon í fyrstu umferð Evrópudeildar kvenna í handknattleik í dag.

Leikurinn fór fram á heimavelli Blomberg-Lippe í Lemgo en um var að ræða fyrsta leik liðanna í riðlakeppninni. Liðin leika í C-riðli ásamt pólska liðinu Zaglebie Lubin og Mosonmagyaróvári frá Ungverjalandi.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Gestirnir frá Dijon byrjuðu betur og voru með tveggja til þriggja marka forskot lengst af í fyrri hálfleiknum en í stöðunni 11-9 fyrir Dijon náðu heimakonur 5-1 áhlaupi og komust 14-12 yfir. Staðan í hálfleik var 18-17 fyrir Blomberg-Lippe og var Díana Dögg komin með tvö mörk.

Blomberg-Lippe var áfram með forystuna í síðari hálfleiknum. Þær komust mest þremur mörkum yfir en um miðjan hálfleik náði lið Dijon að jafna metin og komast yfir í stöðunni 25-24.

Heimakonur voru hins vegar mun sterkari á lokakaflanum. Þær náðu 7-2 kafla og tryggðu sér sigur í leiknum. Lokatölur 35-30 og góður sigur Blomberg-Lippe í fyrsta leik riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Díana Dögg skoraði fjögur mörk fyrir Blomberg-Lippe í leiknum en hún gekk til liðs við félagið í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×