Enski boltinn

„Ef við getum þetta á Anfi­eld þá getum við þetta alls staðar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes lagði upp fyrra mark sinna manna í dag.
Bruno Fernandes lagði upp fyrra mark sinna manna í dag. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

„Við höfum verið réttilega gagnrýndir, staða okkar í deildinni segir allt sem segja þarf. Við höfum tapað of mikið af stigum,“ sagði Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn toppliði Liverpool á Anfield.

Rauðu djöflarnir náðu í stig á Anfield, eitthvað sem liðið hefur ekki gert oft undanfarin ár, og hefðu með smá heppni getað landað öllum þremur stigunum. Fernandes velti fyrir sér af hverju hann og liðsfélagar hans gætu ekki spilað svona í öllum leikjum.

„Við þurfum stigin og hefðum getað unnið leikinn í blálokin en þetta eru sanngjörn úrslit. Bæði lið spiluðu góðan fótbolta.“

„Ég er nokkuð pirraður. Ef við spilum svona gegn Liverpool, toppliði deildarinnar, af hverju getum við ekki gert það í öllum leikjum? Jafnframt átti ég loksins almennilegan leik. Við sögðum við sjálfa okkur að við þyrftum að gera meira til að fá eitthvað út úr þessari leiktíð.“

„Það er jákvætt að jafna metin eftir að við lentum 2-1 undir en við þurfum meira. Nú eigum við Arsenal í ensku bikarkeppninni. Það verður erfitt en við viljum komast í úrslitaleikinn á ný.“

„Við vitum hversu erfitt það er að spila við Liverpool. Í dag lögðum við virkilega mikið á okkur. Að spila af mikilli ákefð og ástríðu er það sem mun skila einhverju í svona leikjum. Maður verður að leggja vinnuna á sig og það er ástæðan fyrir að við fengum eitthvað úr leiknum.“

„Við getum ekki hætt hér. Við verðum að taka þennan pirring með inn í næsta leik og skilja að þetta þarf að vera getustigið okkar leik eftir leik. Ef við getum þetta á Anfi­eld þá getum við þetta alls staðar,“ sagði Bruno að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×