Enski boltinn

Nýttu klásúlu í samningi Maguire

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Maguire virtist á leið í burtu frá Manchester United sumarið 2023 en er nú með samning við félagið sem gildir til 2026.
Harry Maguire virtist á leið í burtu frá Manchester United sumarið 2023 en er nú með samning við félagið sem gildir til 2026. Getty

Samningur Harry Maguire við Manchester United gildir nú fram í júní 2026, sama mánuð og næsta HM í fótbolta hefst, eftir að klásúla í samningi hans við félagið var virkjuð. Rúben Amorim vill þó meira frá miðverðinum.

Amorim greindi frá því á blaðamannafundi í dag að samningur Maguire hefði framlengst um eitt ár en þessi 31 árs gamli leikmaður hefur verið hjá United frá árinu 2019, eftir að hann var keyptur frá Leicester fyrir 80 milljónir punda.

Maguire virtist á útleit frá United undir stjórn Eriks ten Hag, sem svipti hann fyrirliðabandinu og vildi selja hann. Litlu munaði að Maguire færi til West Ham sumarið 2023 en hann lék engu að síður 22 deildarleiki á síðustu leiktíð, og hefur spilað tólf í vetur.

Vill að Maguire bæti sig sem leiðtogi

Maguire lék alla sjö deildarleiki United í desember og virðist því eiga framtíð undir stjórn Amorims, þó að gengi United hafi reyndar verið arfaslakt en liðið er nú í 14. sæti með aðeins 22 stig eftir 19 leiki, og á næst leik við topplið Liverpool á útivelli á sunnudaginn.

Amorim kallar eftir því að Maguire, sem tók við fyrirliðabandinu þegar Lisandro Martínez var skipt af velli á 65. mínútu gegn Newcastle um síðustu helgi, sýni meira frumkvæði sem leiðtogi. United þurfi leiðtoga:

„Ég talaði við hann í morgun og sagði honum að hann þyrfti að bæta sinn leik á vellinum. Við þurfum mjög mikið á honum að halda og hann þarf líka að bæta sig sem leiðtogi, því við vitum öll hvaða aðstæðum hann lenti í hérna en við þurfum sárlega á honum að halda núna og þess vegna virkjum við glaðir klásúluna fyrir Harry,“ sagði Amorim á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×