Elín Helga Sveinbjörnsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Hvíta Hússins frá árinu 2017. Fyrirtækið er ein stærsta auglýsingastofa landsins en félagið velti nærri 1.700 milljónum í fyrra og hagnaðurinn var ríflega 40 milljónir.
Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2024?
Árið einkenndist af hagræðingu, erfiðum breytingum og undirbúningi fyrir nýjan veruleika og venjur á nýju ári. Sveiflur eins og verðbólga og vextir, kosningar og fleiri þættir hafa mikil áhrif á auglýsingastofur, þannig að árið er búið vera vindasamt og áhugavert. Í rúmlega 60 ára sögu Hvíta hússins höfum við oft gengið í gegnum tímabil mikilla breytinga og því segjum við stundum að breytinar séu hluti af erfðamengi okkar. Við höfum markvisst unnið að því að byggja upp sterka vinnustaðamenningu og það sýndi sig að þegar á reynir kemur ávinningurinn af slíkri vinnu hvað best í ljós.
Þarf að tryggja framgang vörumerkja til lengri tíma
Hvað stóð upp úr?
Það sem stendur uppúr eru breytingar, lærdómur, seigla og ný sjónarmið. Auglýsingabransinn hefur verið að finna nýrri tækni stað í sköpunar- og framleiðsluferlinu og margir að reka sig harkalega á í þeim efnum með tilheyrandi lærdómi. Það er hefur verið gaman að sjá dæmi þar sem gervigreind er nýtt til gagns og skapar tíma og rými fyrir það sem við erum best í, að skapa.
Fólk kallaði eftir því í þessum kosningum og ég vona að þær breytingar verði til góðs fyrir fólk og fyrirtæki.
Hverjar voru helstu áskoranirnar?
Almennt eru áskoranirnar í þessum bransa slagurinn sem oft vill verða á milli skilvirkni og sköpunar. Viðskiptamódel sem gengur út á að selja tíma starfsfólks krefst þess að hver mínúta sé vel nýtt. En sköpunargáfan þarf sitt frelsi og ný tækni er að hjálpa okkur með einmitt þetta, að gera ákveðna hluta sköpunarferlisins skilvirkari og búa þannig til rými fyrir óskipulagið sem skapandi hugmyndavinna þarf. Verkefni okkar er að vera sífellt að takast á við þarfir markaðarins og tryggja samþættingu langtíma og skammtímahugsunar í markaðssetningu. Það er lykilatriði að tryggja framgang vörumerkja til lengri tíma, sérstaklega í ólgusjó breytinga og nýs veruleika.
Hvernig lítur næsta ár út frá ykkar bæjardyrum séð?
Hjá okkur eru bjartir tímar framundan. Við höfum skýra stefnu, mörg spennandi verkefni á teikniborðinu góðan viðskiptavinahóp og gríðarlega hæfileikaríkt starfsfólk. 2024 var ár naflaskoðunar og mikilla sviptinga og við erum tilbúin í nýtt ár. Við ætlum að hafa gaman í vinnunni og gera framúrskarandi verk og þjónusta viðskiptavini okkar vel.
Væntingar og vonir til væntanlegrar nýrrar ríkisstjórnar?
Ég vænti breytinga frá nýrri ríkisstjórn. Fólk kallaði eftir því í þessum kosningum og ég vona að þær breytingar verði til góðs fyrir fólk og fyrirtæki. Ég er bara nokkuð bjartsýn á að það takist.