Innlent

Varað við ferða­lögum víða um land

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Best er að halda sér heima með konfekt í skál.
Best er að halda sér heima með konfekt í skál. Stöð 2

Varað er við ferðalögum víða um land í kvöld vegna veðurs og gular og appelsínugular viðvaranir taka gildi víða í kvöld og í nótt. Sannkallaður jólastormur er í aðsigi og upplýsingafulltrúi Landsbjargar hvetur fólk til að halda sig heima með konfekt í skál í kvöld.

Búist er við hríðarveðri með hléum og hvassveðri allt fram á miðnætti annað kvöld á jóladag. Veðrið var ekki betra í gærkvöldi en á fimmta tugi einstaklinga þurfti að bjarga á Holtavörðuheiðinni sem lokað var síðdegis.

„Það var bara snælduvitlaust veður, það er ekkert hægt að lýsa því öðruvísi. Glerhálka, bílarnir héldust ekki á veginum. ÞAð þurfti að sanda veginn og það dugði ekki til. Okkar fólk stóð ekk nema á broddum og þurfti að leiða fólk úr rútunum yfir í björgunarsveitarbíla til að selflytja niður,“ segir Jón Þór.

Jón Þór segir spána í kvöld ekki vera mikið kræsilegri.

„Best er að fara ekki. Það er einfaldast. Við þurfum að skoða veðurspána og aðstæður á veginum. Inni á umferðin.is er tiltölulega góð lýsing á færðinni að hverju sinni. Að einhver viti af þér, að þú sért á þessari leið og hvenær þú ætlir að koma. Það eru meginskilaboðin,“ segir hann.

„En best er að vera kjurr inni með konfekt í skál og hafa það huggulegt. Við erum til reiðu eins og venjulega en vonumst til þess að það reyni ekki á,“ segir hann þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×